Flugfreyjur samþykktu verkfall

Flugfreyjur samþykktu að fara í verkfall. Myndin er úr myndasafni.
Flugfreyjur samþykktu að fara í verkfall. Myndin er úr myndasafni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands hefur setið í húsi ríkissáttasemjara frá því klukkan tíu í morgun. Mikill meirihluti þátttakenda í atkvæðagreiðslu um verkfall flugfreyja hjá Icelandair nú í vikunni studdi að fara í verkfall.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lá fyrir nú síðdegis. Alls tóku 243 félagsmenn þátt í kosningunni. Af þeim sögðu 227 já við verkfalli, 15 sögðu nei og einn seðill var ógildur.

Sigrún Jónsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, vildi ekki tjá sig neitt um stöðu samningaviðræðnanna en sagði: „Við sitjum hér enn. Við erum búnar að vera hérna síðan klukkan tíu í morgun. Það hlýtur að segja eitthvað,“ þegar rætt var við hana um klukkan 20.30. Samtök atvinnulífsins fara með samningsumboðið fyrir Icelandair.

Búið var að boða að flugfreyjur legðu niður störf 26. og 27. september næstkomandi og síðan aftur 3. og 4. október ef verkfallsboðun yrði samþykkt, eins og nú liggur fyrir að var gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert