Karpov í heimsókn í október

Anatolí Karpov.
Anatolí Karpov. Reuters

Anatolí Karpov frá Rússlandi, fyrrverandi heimsmeistari í skák, kemur til Íslands í byrjun október í tilefni af 111 ára afmæli Taflfélags Reykjavíkur en hann gekk nýlega í félagið.

Karpov mun meðal annars heimsækja grunnskóla og tefla þar við ungt og upprennandi
skákfólk, mæta á skákæfingu hjá Taflfélagi Reykjavíkur, tefla fjöltefli í Ráðhúsi Reykjavíkur og heimsækja gröf Bobby Fischers.

Anatoly Karpov varð heimsmeistari 1975, einungis 24 ára gamall, þegar   Fischer neitaði að verja titilinn sem hann vann í Reykjavík þremur árum fyrr.  Karpov var óumdeilanlega sterkasti skákmaður heims þar til Garrí Kasparov kom fram á sjónarsviðið. Þeir tefldu fimm einvígi um heimsmeistaratitilinn á árunum 1984 til 1990 og á hendanum hafði Kasparov betur. Karpov varð aftur heimsmeistari, eftir að Kasparov yfirgaf Alþjóðaskáksambandið FIDE og hélt titlinum til 1999.

Karpov hefur á undanförnum árum beint kröftum sínum í síauknum mæli að góðgerðarmálefnum og er í dag góðgerðarsendiherra UNICEF í Mið- og Austur-Evrópu.

CCP, framleiðandi tölvuleiksins EVE Online, og MP Banki standa að heimsókn Karpovs  ásamt TR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert