Stefnt er að því að gera Þríhnjúkagíg ofan við Heiðmörk aðgengilegan fyrir almenning og skapa við hann ferðamannastað í fremstu röð.
Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Icelandair Group og fjárfestingarsjóðurinn Stefnir Icelandic Travel Service Fund hafa efnt til samstarfs við Árna B. Stefánsson, hellarannsóknamann og félaga hans, um þetta markmið.
Þríhnjúkar eru ofan við Heiðmörk um 20 km suðaustur af höfuðborgarsvæðinu í átt að Bláfjöllum. Þeir eru innan Bláfjallafólksvangs og tilheyra lögsögu Kópavogs. Þangað er um 25 mínútna akstur frá Reykjavík.
Gígurinn er kvikuhólf eldstöðvar sem gaus fyrir 3-4 þúsund árum. Áformað er að leggja veg frá Skíðasvæðinu í Bláfjöllum um 2,5 km í átt að Þríhnjúkagíg þar sem ráðgert er að byggja aðkomubyggingu inn í hraunstafn um 300 metra frá gígnum. Þaðan liggi jarðgöng inn í gíghvelfinguna miðja.
Myndskeið um Þríhnjúkagíg verður birt á mbl.is síðar í dag.