Loðnuvertíðin mátti hefjast á laugardaginn og lýkur henni væntanlega í lok apríl á næsta ári. Víkingur AK 100 kannaði stöðuna út af Vestfjörðum þegar á laugardag, að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarskipa hjá HB Granda. Slæmt veður kom þó í veg fyrir veiði.
„Hann er kominn inn á Ísafjörð í var, það er haugabræla út af Vestfjörðum,“ segir Ingimundur í Morgunblaðinu í dag. „Það var sæmilegur friður þarna hátt í sólarhring. Þeir sáu reyndar á bakaleiðinni svolítið af loðnutorfum en það var ekkert veður til að eiga við þetta.“ Hann sagði að menn hefðu í gegnum tíðina alltaf byrjað leitina við norðvestanvert landið og fært sig svo austar en þar hefði veðrið ekki heldur verið nógu gott.
Víkingur er um 1.300 tonna skip og um 15 manns eru í áhöfn. Að sögn Ingimundar verður hann ekki gerður út á loðnu nema í tvær til þrjár vikur, þar sem skipið er ekki búið kæli- og frystitækjum, öfugt við hin þrjú skipin sem fyrirtækið mun að líkindum senda á loðnu. Þau eru nú á síld og makríl. Lýsisverðið er gott, verðlag á mjöli hefur lækkað nokkuð en er samt tiltölulega gott, segir Ingimundur.