Aðalmeðferð í njósnamáli lokið

Siv Friðleifsdóttir í héraðsdómi í dag.
Siv Friðleifsdóttir í héraðsdómi í dag. Árni Sæberg

Aðalmeðferð í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn Þorsteini Húnbogasyni lauk á fjórða tímanum í dag. Hann er ákærður fyrir að hafa komið fyrir eftirfararbúnaði í bíl Sivjar Friðleifsdóttur, fyrrverandi sambýliskonu sinnar, og fylgst með ferðum hennar á tímabili haustið 2010.

Í málinu liggur fyrir og er óumdeilt að Þorsteinn tók ökurita á leigu hjá fyrirtækinu SAGAsystem 21. september 2010. Hann lét setja búnaðinn upp í bíl sinn, Subaru, og gaf þær skýringar að sonur sinn tæki brátt bílpróf og hann vildi fylgjast með aksturslagi hans. Þá er óumdeilt að búnaðurinn var skömmu síðar færður yfir í annan bíl, Skoda, sem Siv hafði til umráða.

Þorsteinn neitar sök og segir að búnaðurinn hafi verið færður yfir í Skoda-bifreiðina með vitund Sivjar. Þau hafi einnig rætt um það áður eða í febrúar 2010 að taka á leigu slíkan ökurita. Þá hafi báðar bifreiðar verið skráðar fyrir æfingakennslu og ávallt staðið til að færa ökuritann á milli bifreiða. Siv sagði hins vegar að búnaðinum hefði væntanlega verið komið fyrir á meðan sonur hennar var með hann í láni og hún í útlöndum.

Verjandi Þorsteins sagði fyrir dómi að ástæða þess að Siv gerði ökuritann tortryggilegan síðar væri erfið sambandsslit sem áttu sér stað í september á síðasta ári.

Siv grunlaus frá upphafi

Framburður Sivjar var á aðra leið en hún sagði það lygi að þau hefðu rætt um að taka slíkan búnað á leigu. Hún sagði að í sínum ótrúlegustu draumum hefði hún ekki getað ímyndað sér að slíkur búnaður yrði settur upp í bíl hennar án hennar vitneskju og sagði að sér misbyði þetta.

Búnaðurinn fannst 18. nóvember 2010. Siv sagði að áður var hana farið að gruna að Þorsteinn fylgdist með sér. Hún velti fyrir sér hvort hann væri með fólk í því að fylgja sér eftir og grunur hennar varð sterkari þegar hún fann á heimili þeirra, en þangað fór hún til að heimsækja son sinn, blað þar sem sjá mátti staðsetningar hennar heilan dag, mínútu frá mínútu. Dagurinn var 11. október 2010 eða fyrir nákvæmlega ári. Þorsteinn kannaðist ekki við hafa ritað blaðið.

Þegar svo var komið tók hún upp á að slökkva á Bluetooth-búnaði í síma sínum ef svo vildi til að fylgst væri með henni í gegnum hann. Að endingu kom hún við hjá Nesradíói og lét leita í bílnum. Búnaðurinn fannst og var fagmannlega settur upp, að sögn starfsmanns fyrirtækisins. Aðeins hefði annað af tveimur loftnetum sést og það verið efst á framrúðunni og borið lítið á því.

Bifreiðarnar báðar Þorsteins

Meðal þess sem verjandi Þorsteins benti á er að báðar bifreiðar eru í eigu Þorsteins. Hann hefði því verið í fullum rétti þegar hann færði búnaðinn á milli þeirra. Raunar sagði Þorsteinn í sinni skýrslu að Siv hefði tekið bílinn ófrjálsri hendi og ekki skilað honum þegar eftir því var leitað. Hún ekur enn um á bílnum.

Að auki kom bæði fram hjá Þorsteini og verjanda hans að hann hefði enn verið að læra á búnaðinn þegar mál þetta kom upp. Hann hefði ekki haft þekkingu til að kalla eftir upplýsingum um ferðir Sivjar. Það hefði ekki verið kynnt fyrir honum að það væri hægt enda hefði það ekki verið tilgangurinn. Verjandinn hélt því einnig fram að loftnetið hefði verið vel sjáanlegt.

Límmiðarnir á rúðunum

Þá var tekist nokkuð á um límmiða við aðalmeðferðina. Þannig er að þegar settur er upp ökuriti límir starfsmaður límmiða á hliðarrúðuna hjá ökumanninum þannig að sjá má að bifreiðin er búin slíkum búnaði. Það var gert í tilviki Þorsteins og er óumdeilt.

Þorsteinn hélt því hins vegar fram að hann hefði sett samskonar límmiða í hina bifreiðina þegar hann færði búnaðinn yfir. Siv hélt því hins vegar fram að sá límmiði hefði verið settur á rúðuna eftir að búnaðurinn fannst, auk þess sem honum hefði verið haganlega komið fyrir á afturrúðunni. Hélt hún því fram að það hefði gerst á meðan sonur sinn var með bílinn í láni, en synir þeirra búa hjá Þorsteini.

Framburður Sivjar fær stoð í framburði starfsmanns Nesradíós sem sagðist hafa gengið í kringum bílinn í leit að slíkum límmiða en ekki fundið. Þá vakti það athygli að sá límmiði sem fannst í bílnum hefur ekki verið notaður af SAGAsystems í fimm ár og er frábrugðinn þeim sem þeir líma sjálfir á rúður.

Sjálfur sagðist Þorsteinn hafa fengið límmiðann hjá starfsmanni SAGAsystem. Ekki hefði hins vegar tekist að hafa uppi á honum og þeir starfsmenn sem komu fyrir dóminn báru að viðskiptavinir fengju aldrei límmiða. Hins vegar kæmi fyrir að fyrirtæki fengju þá ef þau ætluðu að láta sjá um uppsetningu annars staðar.

Lögreglumaður sem kom fyrir dóminn og rannsakaði límmiðann sagði að hann hefði líklega komið annars staðar frá, þ.e. að hann hefði ekki verið límdur nýr á rúðuna.

Fylgst með á korti

Hvað varðar möguleikann á því að fylgjast með ferðum þeirra bíla sem eru með ökurita sagði starfsmaður SAGAsystem að það væri með um þriggja metra nákvæmni en oftast þó innan við metra. Þá væri hægt að rekja ferðir bílsins á landakorti og uppfærðist staðan á fimmtán sekúndna fresti.

Hins vegar var ekki farið í það hversu flókin sú aðgerð væri að nota þennan möguleika í gegnum viðmót SAGAsystem.

Í málflutningi kom lítið nýtt fram hjá sækjanda og verjanda. Annað en að ákæruvaldið fer fram á að Þorsteinn verði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi en refsingin verði bundin skilorði, ekki síst með hliðsjón af því að hann er með hreinan sakarferil.

Dómari málsins, Arngrímur Ísberg, kveður upp dóm sinn á næstu vikum.

Þorsteinn Húnbogason ásamt lögmanni sínum í héraðsdómi í dag
Þorsteinn Húnbogason ásamt lögmanni sínum í héraðsdómi í dag mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert