Það var skýrt markmið þeirra laga sem sett voru á síðasta ári í kjölfar gengislánadóma Hæstaréttar að tryggja öllum rétt svo ekki þyrfti að koma til málshöfðunar. Einnig hefði verið skýrt að ekki væri gengið á stjórnarskrárvarinn eignarrétt kröfuhafa. Þetta kom fram í svari Árna Páls Árnasonar efnahagsráðherra við fyrirspurn Bjarna Benediktssonar, þingmanns og formanns Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þar spurði Bjarni hvort ekki væri ástæða til að endurskoða útreikning lána sem byggjast á fyrrgreindum lögum. Afturvirkni laganna væri íþyngjandi fyrir þá sem hefðu staðið í skilum með sín lán. Benti Bjarni meðal annars á að fólk væri að vinna að hópmálssókn vegna útreiknings gengislána.
Segir lagasetninguna mistök
Árni sagði eftir standa að til væru skuldarar sem teldu sig eiga betri rétt en dómurinn veitti. Það væri ekki á færi löggjafans að svipta fólk sem teldi sig eiga stjórnarskrárvarinn eignarrétt rétti sínum og Hæstiréttur yrði að svara því hvort rétt hefði verið reiknað.
Bjarni kvað það alvarlegt ef neytendur teldu sér rétt að fara í mál til að leita réttar sína vegna lagasetningar frá Alþingi og einkennilegt ef menn sæju ekki að þeim hefði mistekist við lagasetninguna. Hún hefði ekki verið samþykkt með samþykki Sjálfstæðisflokksins.