Stjórn Bankasýslu ríkisins segir í bréfi til fjármálaráðherra að það sé engum vafa undirorpið að Páll Magnússon hafi verið hæfastur umsækjenda um starf forstjóra stofnunarinnar og uppfylli laga- og aðrar hæfniskröfur, sem gerðar voru.
Bréf stjórnar bankasýslunnar er birt á vef stofnunarinnar. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fór fram á skýringar stjórnarinnar á ráðningu Páls en hörð gagnrýni hefur komið fram á ráðninguna á þeirri forsendu að Páll hafi hvorki reynslu né menntun til starfsins.
Í bréfinu segir að af þeim fjórum umsækjendum, sem taldir voru hæfir til að gegna starfinu, hafi Páll verið metinn hæfastur. Hann uppfylli þær menntunarkröfur sem lög áskilji og uppfylli einnig kröfur laganna varðandi sérþekkingu á banka- og fjármálum. Er vísað til þess að hann hafi starfað sem bæjarritari og sviðsstjóri hjá Kópavogsbæ, setið í stjórnum fyrirtækja, þar á meðal Landsvirkjunar og verið þar stjórnarformaður. Þá hafi hann verið aðstoðarmaður ráðherra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
Loks hafi Páll verið efstur umsækjenda á huglægu getuprófi og næstefstur í persónuleikaprófi en þriðji í svonefndu Numerical-prófi. Þá hafi hann verið metinn ásamt tveimur öðrum umsækjendum með jafn mikla stjórnunarreynslu en einn var talinn með minni reynslu. Páll sé eini umsækjandinn sem gegni stjórnunarstarfi í dag.
Svarbréf stjórnar Bankasýslu ríkisins