Alcoa hættir við Bakka

Tóma Sigurðsson, forstjóri Alcoa, á fundi bæjarráðs Norðurþings í dag.
Tóma Sigurðsson, forstjóri Alcoa, á fundi bæjarráðs Norðurþings í dag. mynd/Heiðar

Tómas Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, kynnti bæjarráði Norðurþings og bæjarstjóra nú fyrir stundu þá ákvörðun Alcoa að hætta við áform um að reisa og reka álver á Bakka við Húsavík.

Hann sagði í samtali við mbl.is að þessi ákvörðun hafi verið óhjákvæmileg, þar sem legið hafi fyrir að ekki yrði hægt að útvega 250 þúsund tonna álveri næga raforku.

Alcoa hefur í samvinnu við heimamenn fyrir norðan, Landsvirkjun og stjórnvöld unnið að þessu verkefni síðan 2005 og þegar undirbúningur hófst, þá var uppleggið það, að það yrðu til a.m.k. 400 MW af orku í verkefnið.

„Til þess að gera langa sögu stutta, þá eru þær forsendur ekki til staðar lengur. Það hefur verið gerð viljayfirlýsing af hálfu Landsvirkjunar, um að selja orkuna fyrir norðan til annarra verkefna og þar fyrir utan hefur ekki um nokkra hríð verið fyrir hendi viljayfirlýsing um orkusölu til okkar, hvorki af hálfu ríkisstjórnarinnar né Landsvirkjunar. Það liggur því fyrir að þær forsendur sem við lögðum af stað með í upphafi eru brostnar og því er ekki um neinn annan kost að ræða hjá okkur en draga okkur með formlegum hætti út úr þessu verkefni," sagði Tómas.

Alcoa hefur á þeim rúmu sex árum sem liðin eru frá því að undirbúningur verkefnisins hófst varið á öðrum milljarði króna í undirbúninginn.

Þetta er reiðarslag fyrir heimamenn, en áætlað hafði verið að á bilinu 700 til 1000 störf yrðu til, þegar verksmiðjan væri komin í rekstur en á byggingartíma var áætlað að um 3 þúsund manns hefðu atvinnu af uppbyggingunni.

„Alcoa á Íslandi tilkynnti hagsmunaaðilum á Norðurlandi í dag að félagið væri hætt áformum um byggingu álvers á Bakka enda ljóst að ekki muni fást nægileg orka á samkeppnishæfu verði til álsversins. Þessi niðurstaða kemur í kjölfar rúmlega fimm ára undirbúningsvinnu við verkefnið, en af hálfu Alcoa hefur legið fyrir frá upphafi að ekki yrði ráðist í svo umfangsmikla fjárfestingu, sem álver er, nema tryggt væri að næg orka fengist til álversins á viðunandi verði til framtíðar," segir í tilkynningu frá Alcoa, sem send var til fjölmiðla nú síðdegis.

Allt annar veruleiki en fyrir 6 árum

Þar segir jafnframt: „Í dag telur Landsvirkjun sig einungis geta tryggt Alcoa helming þeirrar orku sem Alcoa, Landsvirkjun og stjórnvöld gengu útfrá í upphafi að fengist til verkefnisins.  Auk þess er afhendingartími þeirrar orku sem Alcoa býðst of langur til að af fjárfestingu af þessari stærðargráðu geti orðið. Alcoa stendur því frammi fyrir allt öðrum veruleika en fyrir sex árum þegar fyrirtækið hóf vinnu við verkefnið í samstarfi við stjórnvöld, sveitarfélög nyrðra og orkufyrirtæki.

Eftir viðræður við stjórnendur Landsvirkjunar og fulltrúa stjórnvalda hefur Alcoa komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé lengur unnt að réttlæta fjárfestingu af þeirri stærðargráðu sem bygging og rekstur álvers á Bakka er.

Alcoa hóf þátttöku í verkefninu með undirritun viljayfirlýsingar við ríkisstjórnina og Norðurþing á fyrri hluta árs 2005. Viljayfirlýsingar við Landsvirkjun/Þeistareyki og Landsnet voru gerðar í kjölfarið.

Viljayfirlýsingin við Landsvirkjun rann út árið 2008 og ári síðar viljayfirlýsing Alcoa, Norðurþings og stjórnvalda. Beiðni Alcoa um framlengingu hennar var hafnað af ríkisstjórninni.

Þrátt fyrir það ákvað Alcoa að halda áfram vinnu við sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir álver, orkuver og raflínur á svæðinu. Matsferlinu lauk í nóvember 2010.

Um leið og Alcoa lýsir vonbrigðum yfir því að þær forsendur, sem lagt var upp með í verkefninu árið 2005, séu brostnar þakkar fyrirtækið Norðlendingum af heilum hug samstarfið og stuðninginn við verkefnið."

Bakki við Húsavík.
Bakki við Húsavík. mbl.is/GSH
Frá Húsavík.
Frá Húsavík. www.mats.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert