Kristín Jóhannesdóttir, sem er m.a. ákærð í skattahluta Baugsmálsins fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri fjárfestingarfyrirtækisins Gaums vantalið til tekna Gaums söluhagnað upp á 916 milljónir, hafnaði því fyrir rétti í dag að þessar tekjur hefðu verið vantaldar.
Hið rétta væri að frestað hefði verið að telja þetta fram, líkt og heimild hefði verið til. Þá vísaði hún til þess að ákvörðun um hvernig staðið var að framtali hefði verið í höndum endurskoðanda félagsins, Stefáns Hilmarssonar. Hann kemur fyrir dóm á morgun, sem vitni.
Víst er að Stefán þarf að svara mörgum spurningum því bæði Kristín og bróðir hennar, Jón Ásgeir, vísuðu alloft til þess að ákvarðanir í málum sem ákært er fyrir hefðu verið teknar að hans ráðum eða af honum sjálfum.
Líkt og aðrir sakborningar í málinu neitaði Kristín sök.
Kristínu er m.a. einnig gefið að sök að hafa oftalið vaxtagjöld upp á 15 milljónir. Þessu neitaði hún. Um mistök bókara hefði verið að ræða sem hann hefði gengist við. Hún sagði aðspurð af verjanda sínum, Kristínu Edwald, að hún hefði hvorki gefið fyrirmæli um einstakar bókanir eða færslur í bókhald, þótt hún hefði fylgst með þessum hlutum almennt.