Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hefur sent innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, greinargerð vegna innkaupa embættisins, sem ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, hafði gert athugasemdir við og talið lögbrot.
Haraldur segir í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins að í greinargerðinni sé sýnt fram á að embættið hafi farið að lögum við innkaupin. Sú reglugerð sem ríkisendurskoðandi hafi miðað við hafi ekki tekið gildi fyrr en ári eftir innkaupin.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist Haraldur í greinargerðinni vekja athygli ráðherra á þeirri spurningu hvort ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, hafi gengið of langt í fjölmiðlum með yfirlýsingum um lögbrot embættis ríkislögreglustjóra. Það sé dómstóla en ekki ríkisendurskoðanda að kveða upp dóm um hvort farið hafi verið að lögum.