Mikillar tortryggni gætir meðal Þingeyinga í garð Landsvirkjunar og stjórnvalda, eftir að Alcoa hætti í fyrradag við áform sín um að reisa álver á Bakka við Húsavík. Þingeyingar segjast nú horfa á bak þeim þúsund störfum sem hefðu skapast til frambúðar, ef bygging álvers hefði orðið að veruleika.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að í samtölum við Þingeyinga í gær kom jafnframt fram að þá grunar að Landsvirkjun áformi að selja raforku út fyrir svæðið, þrátt fyrir viljayfirlýsingu á milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna fyrir norðan frá í maí á þessu ári, þar sem sérstaklega er kveðið á um það að jarðvarminn sem virkjaður verður í Þingeyjarsýslum verði nýttur til atvinnuuppbyggingar heima í héraði.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að þessar grunsemdir norðanmanna ættu ekki við rök að styðjast.