Þjónustustýringu verði komið á

Velferðarráðuneytið.
Velferðarráðuneytið. mbl.is / Hjörtur

Samtengd rafræn sjúkraskrá fyrir allt landið og þjónustustýring í heilbrigðiskerfinu sem komið verði á í áföngum er á meðal helstu tillagna ráðgjafarhóps velferðarráðherra um breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustu sem kynntar voru nú fyrir stundu.

Byggðist starf hópsins á skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group vann fyrir ráðuneytið þar sem skipulag og staða íslenska heilbrigðiskerfisins var greind. Leggur hópurinn til að strax verði hafist handa við að útfæra tillögurnar sem hann hefur nú lagt fram.

Leggur hópurinn til að átaki verði hrundið af stað í samræmdri skráningu og birtingu heilbrigðisupplýsinga. Þannig verði meðal annars ábyrgð á skráningu, úttekt og skilum upplýsinga skilgreind og skýrð.

Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins kemur fram að Ísland sé nánast einstakt í því meðal Evrópuríkja þar sem ríkisrekin heilbrigðisþjónusta er á föstum fjárlögum að hafa ekki þjónustustýringu eða tilvísunarkerfi.

Því leggur ráðgjafarhópurinn til að þjónustustýringu verði komið á í áföngum. Þannig verði einn læknir, að jafnaði heimilislæknir, gerður ábyrgur fyrir þjónustustýringu sjúklings og formleg samvinna göngudeilda, sérgreinalækna og heilsugæslu aukin.

Þá er lagt til að upplýsingagjöf til sjúklinga verði aukin með símaþjónustu og upplýsingum á Netinu til þess að benda þeim á hvert þeir eigi að snúa sér innan heilbrigðiskerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert