Vodafone hefur hert reglur um sölu á SIM-kortum og Frelsisinneignum vegna tilrauna manna til að svíkja fé út úr fjarskiptafyrirtækjum. Hefur málið verið kært til lögreglu.
Fram kemur í tilkynningu, sem Vodafone hefur sent söluaðilum á Vodafone Frelsi, að undanfarið hafi nokkrir söluaðilar orðið varir við óvenjuleg viðskipti með SIM-kort (startpakka) frá Vodafone og Frelsisinneignir. Í þeim tilvikum hafi einstaka viðskiptavinir keypt SIM-kort og inneignir fyrir háar upphæðir og greitt fyrir með reiðufé. Umræddum SIM-kortum hafi í framhaldinu verið komið í notkun erlendis, þar sem þess hafi verið freistað að svíkja fé út úr fjarskiptafyrirtækjum.
„Fyrstu merki um að ekki væri allt með felldu komu upp fyrir helgi, þegar söluaðilar tilkynntu um umfangsmikil kaup gegn reiðufé. Um helgina urðu sjálfvirk eftirlitskerfi Vodafone vör við afar óhefðbundið hringimynstur úr umræddum SIM-kortum (símanúmerum). Sérfræðingar Vodafone á Íslandi og erlendis hófust handa við að rannsaka málið. Niðurstaðan er ótvírætt sú, að um tilraun til sviksamlegrar starfsemi var að ræða og Vodafone hefur gripið til viðeigandi ráðstafana,“ segir í tilkynningu.
„Vegna málsins hefur Vodafone hert reglur um sölu á SIM-kortum og Frelsisinneignum. Tilgangurinn er að draga úr hættunni á tjóni sem á endanum gæti endurspeglast í hærra verði á vörum og þjónustu til annarra viðskiptavina.
Vodafone harmar óþægindin sem söluaðilar kunna að verða fyrir vegna þessa en ítrekar þann ásetning, að tilgangurinn er að stuðla að heilbrigðum viðskiptum og koma í veg fyrir sviksamlegt athæfi,“ segir ennfremur.