„Á leikskólum borgarinnar eru ónýtt pláss fyrir börn fædd 2010. Þeim plássum má ráðstafa án þess að ráða aukalega starfsfólk. Þrátt fyrir það koma tilmæli frá borginni til leikskólastjóra að þeir megi ekki ráðstafa þeim. Ég velti fyrir mér hvar, hvenær og hvers vegna sú ákvörðun var tekin,“ skrifar Líf Magneudóttir, fulltrúi Vinstri grænna í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar, á bloggsíðu sinni.
„Þetta er pólitísk ákvörðun, sem ekki virðist hafa verið tekin neins staðar. Ég hef engin svör fengið, en ég vakti máls á þessu á fundi skóla- og frístundaráðs í síðustu viku. Það sem skýtur skökku við er að á leikskólum eru nokkur pláss sem eru vannýtt,“ segir Líf.
Hún segir að plássum hafi verið fjölgað í sumar, einhver afgangur sé af þeim og að auki hafi losnað nokkuð af plássum í haust. Sjálfsagt sé að ráðstafa þeim til þeirra barna sem fædd eru snemma á árinu 2010, en foreldrar þeirra þurfa núna að nýta sér talsvert dýrari þjónustu dagmæðra.
Hún segir að leikskólastjórar hafi fengið bréf, þar sem þeim fyrirmælum var beint til þeirra að neita að svara spurningum RÚV um hversu mörg óráðstöfuð pláss eru í skólunum.
„Hvers vegna eru þetta leynilegar upplýsingar?“ spyr Líf. „Þetta samræmist varla góðum stjórnsýsluháttum.“
„En það sem skiptir mestu máli er að þetta er ósanngjarnt gagnvart börnum og foreldrum þeirra og ég sé mikla afturför í þessum málaflokki frá því sem áður var.“