Sjúkraflugvél Mýflugs er nú í sjúkraflugi með alvarlega veikt barn frá Kulusuk á Grænlandi til Árósa í Danmörku. Er þetta 26. sjúkraflugsbeiðnin sem borist hefur í nóvember, en talsverðar annir hafa verið í sjúkrafluginu undanfarna viku.
Samkvæmt upplýsingum frá Mýflugi var flugvélin að sinna öðru útkalli til Hornafjarðar þegar beiðni barst um að flytja barnið frá austurströnd Grænlands til Danmerkur. Voru höfð snör handtök þegar fyrra flugi lauk, haldið var til Akureyrar og sóttur læknir áður en farið var í loftið kl. 13:58 í dag, áleiðis til Kulusuk. Eftir rúmlega tveggja klukkustunda flugtíma var lent, eldsneyti bætt á, sjúklingur ásamt aðstandanda færður um borð, og haldið af stað til Akureyrar.
Á Akureyri var lent klukkan sjö í kvöld, skipt um áhöfn, tekið eldsneyti og flugtak framkvæmt rúmum 30 mínútum síðar. Ráðgert er að lent verði með sjúklinginn laust eftir miðnætti að íslenskum tíma, segir í tilkynningu Mýflugs. Heildarflutningsleið sjúklingsins eru rúmir 2.500 km.
Þriðja tiltæka flugáhöfnin sinnir flugvaktinni innan Íslands með
varaflugvélinni, sem mun standa vaktina þangað til að yfirstandandi flugi
lýkur, segja Mýflugsmenn.