Gert að greiða bankanum 76 milljónir

Hæstiréttur hefur dæmt mann til að greiða Landsbankanum 76 milljónir króna en bankinn krafði hann um greiðslu skuldar vegna innistæðulausra færslna á bankareikningi mannsins. 

Í niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands, sem staðfest var í Hæstarétti, segir m.a. að í reikningsyfirlitum, sem maðurinn bæri ekki brigður á að hafa fengið, væru ákvæði þess efnis að athugasemdir óskuðust gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins, annars teldist reikningurinn réttur. Var manninum því gert að greiða Landabankanum skuldina.

Maðurinn skaut málinu til Hæstaréttar í mars sl. og krafðist þess að hann yrði sýknaður af kröfu bankans, en til vara að krafan verði lækkuð.

Fyrir Hæstarétti hélt maðurinn því fram að honum hefðu ekki borist yfirlit yfir inn- og útborganir af reikningnum á árinu 2007. Þar sem þessi málsástæða hafði ekki verið höfð uppi af hans hálfu í héraði varð ekki litið til hennar við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert