20 íslenskir flugmenn missa vinnu

Iceland Express.
Iceland Express.

Um 20 íslenskir flugmenn störfuðu fyrir flugfélagið Astraeus, sem þangað til í gær sinnti flugi fyrir Iceland Express. Að auki voru nokkrir íslenskir flugmenn í þjálfun hjá félaginu. Þeir voru allir verktakar og telja sig ekki eiga rétt til endurkröfu hjá ábyrgðasjóði launa, hvorki í Bretlandi né á Íslandi.

Að sögn eins flugmannanna voru ekki önnur ráðningarkjör í boði fyrir íslensku flugmennina, en hann segist telja að allflestir þeirra bresku flugmanna sem unnu hjá félaginu hafi verið fastráðnir. 

„Við höfum ekki fengið neitt uppsagnarbréf og engar skýringar. Við hættum af sjálfu sér þegar félagið fór í slitameðferð,“ sagði flugmaðurinn í samtali við mbl.is.

Viðkomandi flugmenn hyggjast funda í dag og ráða ráðum sínum og skoða réttarstöðu sína, en þetta kom sem reiðarslag yfir þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert