4,3 milljarða kr. tap

mbl.is/Ernir

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var neikvæð um 4,3 milljarða en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 2,9 milljarða. Þetta kemur fram í níu mánaða uppgjöri borgarinnar sem var lagt fram í borgarráði í dag.

Fram kemur í tilkynningu að rekstrarniðurstaða A-hluta borgarinnar sé hins vegar betri en áætlað hafði verið. Er meginástæðan fyrir betri niðurstöðu að útsvarstekjur hafi verið umfram áætlun, en jafnframt sé rekstur fagsviða Reykjavíkurborgar í góðu jafnvægi.

Lækkandi álverð og óhagstæð gengisþróun

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar, A- og B-hluta, er hins vegar lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Má einkum rekja það til óhagstæðrar gengisþróunar og lækkandi álverðs. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir fjármagnsliði var hins vegar jákvæður.

Segir að rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, hafi verið neikvæð um 4,3 milljarða en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 2,9 milljarða. Viðsnúninginn sé einkum að finna í fjármagnsliðnum sem hafi verið neikvæður um 19,9 milljarða vegna gengisáhrifa og lækkandi álverði en áætlun hafi gert ráð fyrir 4,5 milljarða fjármagnskostnaði.

Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir fjármagnsliði hafi hins vegar verið jákvæð sem nemi 12,9 milljörðum sem sé um 4,2 milljörðum betri niðurstaða en áætlun hafi gert ráð fyrir. Skýrist þetta af hærri útsvarstekjum og að gjaldskrárhækkanir Orkuveitu Reykjavíkur skili einnig tekjuaukningu í samræmi við aðgerðaráætlun sem samþykkt hafi verið í mars sl.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar nam 20,4 milljörðum sem er 5,2 milljörðum umfram fjárhagsáætlun og stendur það vel undir afborgunum langtímalána. Handbært fé frá rekstri nam 22,4 milljörðum eða 8,3 milljörðum umfram fjárhagsáætlun.

A-hluti sýnir mikinn fjárhagslegan styrk

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 1,4 milljarða en áætlanir gerðu ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 675 milljónir kr. á tímabilinu. Niðurstaðan er því talsvert betri en gert var ráð fyrir, sem nemur 2,1 milljarði, þrátt fyrir að fjármagnskostnaður sé mun hærri, vegna verðlagshækkana umfram forsendur fjárhagsáætlunar.

A-hluti Reykjavíkurborgar sýnir mikinn fjárhagslegan styrk hvort sem litið er til eiginfjárstöðu eða annarra hefðbundinna kennitalna, lausafjárstaða er sterk og uppgjörið ber með sér gott greiðsluhæfi.

Hins vegar sýnir uppgjörið að rekstur samstæðunnar er mjög háður sveiflum á álverði og gengi vegna mikilla skulda Orkuveitu Reykjavíkur. Því er mikilvægt að samstæðan skili rekstrarhagnaði fyrir fjármagnsliði eins og nú er, nægu handbærufé frá rekstri og að A-hluti búi áfram yfir fjárhagslegum styrk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert