Fréttaskýring: Heilagt stríð Vantrúar

Núna í október skilaði rannsóknarnefnd skýrslu um störf siðanefndar Háskóla Íslands (HÍ) sem að flestra mati var áfellisdómur yfir henni og stjórnsýslu HÍ vegna meðferðar kæru samtaka sem nefnast Vantrú á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni, stundakennara í guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. Kæran er áhugaverð í ljósi nýliðinna atburða þegar þingmaður Framsóknarflokksins krafðist þess að Eiríkur Bergmann prófessor yrði rekinn sem kennari í Háskólanum á Bifröst fyrir blaðagrein sem birtist í Fréttatímanum þar sem hann hafði tengt Framsóknarflokkinn við þjóðernisstefnu öfgaflokka.

En í kæru Vantrúar var gengið miklu lengra þar sem þar voru kærðar glærur sem aðeins eru notaðar við kennslu í háskólanum og engum öðrum opinberar og í ofanálag var aðalefni kærunnar að í glærunum væri vísað beint í skrif félagsmanna Vantrúar af opinberum vettvangi og ómögulegt að álykta nokkuð um afstöðu Bjarna til þeirra. Jón Ólafsson, prófessor hjá Háskólanum á Bifröst, bendir á það í greinargerð sinni um málið að um alvarlegan misskilning vantrúarfélaga á eðli háskólanáms sé að ræða. „Misskilningurinn er sá að kærendur virðast halda að umfjöllun um félagið í kennslustund í háskóla sé „kynning“ á því. Það er eðlilegt að gera ráð fyrir því í námskeiði um nýtrúarhreyfingar að slíkar hreyfingar séu teknar til gagnrýninnar og fræðilegrar skoðunar. Slík skoðun er ekki kynning heldur þjálfun nemenda í fræðilegri greiningu viðfangsefnisins. Á þessu er grundvallarmunur.“

En þótt halda megi fram að kæran hafi verið byggð á misskilningi náði málið að vinda upp á sig.

Eineltið hefst

Upphaf málsins er það að í september árið 2009 sótti nemandi úr annarri deild tíma hjá Bjarna í nýtrúarhreyfingum. Hann er hvattur til þess að sækja tímana af þáverandi formanni Vantrúar, Óla Gneista Sóleyjarsyni, sem tilkynnir öðrum félögum í Vantrú á innri vef félagsins: „Mig grunar að þetta verði gullnáma.“ Í einhverskonar netspjalli gefur nemandinn Óla Gneista stutta og ónákvæma lýsingu á því hvað sé kennt og tekur á endanum glærur sem notaðar eru í námskeiðinu og kemur þeim til Óla Gneista.

Á grundvelli þessarar stuttu og ónákvæmu lýsingar og þessara glæra leggur Vantrú fram kæru á hendur Bjarna til HÍ. Enginn þeirra sem leggja fram kæruna sat námskeiðið og kæran er meðal annars byggð á getgátum um að Bjarni hafi lagt út af glærunum með móðgandi hætti fyrir félagsmenn Vantrúar. En í samtali við eina fimm nemendur sem sóttu námskeiðið ber öllum saman um að svo hafi ekki verið og að Bjarni hafi þvert á móti kynnt trúar- og trúleysishreyfingar af hlutlægni og ef hann hafi verið gagnrýninn á einhverja hreyfinguna hafi það helst verið á þjóðkirkjuna.

Á innri vef Vantrúar eru menn herskáir og hvetja hver annan áfram. Reynir Harðarson sálfræðingur sem er þá tekinn við formennsku í félaginu skrifar á innri vef félagsins hinn 12. febrúar 2010: „Kæru félagar. Klukkan 15.00 í dag lýstum við yfir heilögu stríði á hendur Bjarna Randveri og guðfræði í Háskóla Íslands.“ Næstu mánuðina taka margir félagsmenn þátt í þessari herferð og eru ótal athugasemdir skrifaðar gegn Bjarna og á hann bornar rangar sakir og höfð um hann óviðurkvæmileg orð. DV greinir frá málinu, í þætti hjá RÚV er tekið viðtal við félagsmann í Vantrú um málið, sömuleiðis á útvarpsstöðinni X-inu, Smugan birtir grein byggða á framburði vantrúarfélaga og Eyjan.is linkar á fréttina.

Meðhöndlun siðanefndar

Kæran er margslungin og í raun leggur Reynir Harðarson, sálfræðingur og formaður Vantrúar, fram þrjár harðorðar kærur í formi greinargerðar og bréfa til rektors, siðanefndar og guðfræði- og trúarbragðafræðideildar hinn 4. febrúar 2010. Kærurnar eru ekki samhljóma og í einn og hálfan mánuð vita hvorki Bjarni né deildin um kærurnar til rektors og nefndarinnar en Bjarni ákveður að svara kærunni til deildarinnar með ítarlegri greinargerð.

Hvernig siðanefnd HÍ tekur aftur á móti á kærunni sem þeim barst er að mati rannsóknarnefndarinnar ekki til eftirbreytni. Eða eins og Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður ku hafa orðað það eftir fund með siðanefndinni árið 2011: „Á 47 ára ferli mínum í lögfræði hef ég aldrei séð svona illa haldið á málum eins og í þessu tilviki.“ Þegar siðanefnd HÍ fær kæruna hefur hún ekkert samband við Bjarna Randver. Í siðanefndinni voru Þórður Harðarson, formaður og prófessor í læknisfræði, Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki, og Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í vísindasögu og eðlisfræði. Nefndin samþykkir samstundis að hafa samband við kæranda en ekki hinn kærða.

Þórður Harðarson býður formanni Vantrúar, Reyni Harðarsyni, til fundar við sig á heimili sínu hinn 7. apríl 2010. Á innri vefnum greinir Reynir félögum sínum í Vantrú nákvæmlega frá klukkutíma löngum fundi sínum með Þórði og segir að hann hafi sagt sér að líkleg niðurstaða nefndarinnar verði að Bjarni hafi gerst brotlegur að því er fram kemur á innri vef Vantrúar. En þarna var ekki enn búið að hafa samband við Bjarna og ekki enn búið að afla gagna í málinu þótt rannsóknarskylda siðanefndarinnar sé rík.

Siðanefndin leggur síðan fram sáttatillögu sem hún þrýstir á guðfræði- og trúarbragðafræðideild að samþykkja 16. apríl 2010 og er tillagan send á alla aðila málsins nema Bjarna Randver. Í tillögunni stendur meðal annars: „Þeir viðurkenna og harma að kennsluefnið felur ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn. Athugasemdir Reynis Harðarsonar og samtaka hans verða teknar til jákvæðrar skoðunar, þegar og ef til þess kemur, að námskeiðið verði endurtekið.“ Þegar þessi sáttatillaga spyrst út um háskólann hittast að undirlagi Guðna Elíssonar prófessors 23 kennarar og doktorsnemar og 22 þeirra skrifa undir ályktun þar sem vinnubrögð siðanefndarinnar eru gagnrýnd. Í lok ályktunarinnar stendur: „Að lokum árétta fundarmenn mikilvægi þess að Háskóli Íslands standi vörð um rannsóknafrelsi kennara á tímum þegar ýmsir þrýstihópar, pólitísk samtök, trúfélög og stórfyrirtæki reyna í auknum mæli að stýra því sem sagt er innan veggja hans.“

Þórður Harðarson bregst við yfirlýsingunni með því að segja af sér formannsembættinu í kærumálinu en hinir nefndarmeðlimirnir sitja áfram.

Ekkert samband við Bjarna?

Þegar Þórður er spurður hvers vegna ekki hafi verið haft samband við Bjarna Randver svarar hann því þannig til: „Sumir nefndarmenn töldu að kæra Vantrúar beindist að einhverju leyti að guðfræðideildinni auk Bjarna,“ segir Þórður. „Aðalatriðið er samt eftirfarandi: 23 mars fyrir fyrsta fund nefndarinnar lá fyrir bréf frá Pétri Péturssyni, deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildarinnar. Hann skýrði frá því að hann hefði átt fund með Bjarna Randveri Sigurvinssyni, Hjalta Hugasyni og Einari Sigurbjörnssyni, þar sem ákveðið var að Pétur Pétursson kæmi fram fyrir hönd kæruþolenda. Siðanefnd vann að sjálfsögðu í samræmi við það. Ég vil taka það fram að það er vinnuvenja í nefndinni að leita sátta, ég hafði starfað í henni í þónokkurn tíma og Þorsteinn Vilhjálmsson er líka með mikla reynslu af störfum í nefndinni. Þessi nefnd okkar hafði afgreitt 7 mál án þess að verða fyrir gagnrýni og helmingi þeirra mála hafði lokið með sáttum.“

Það ber að taka fram að nefndarmenn hafa orðið margsaga um hvort þeir hafi skilið það þannig að Bjarni hafi verið kærður eða hvort það hafi verið deildin. Þetta skiptir máli, því ef deildin var kærð en ekki Bjarni mætti réttlæta það að nefndin hefði ekki haft samband við Bjarna. En þetta virðist þó ekki liggja alveg skýrt fyrir ef marka má orð nefndarmanna sjálfra. Þorsteinn Vilhjálmsson segir í tölvupósti til blaðamanns Morgunblaðsins núna á fimmtudaginn: „Kæra Vantrúar til siðanefndar er vissulega skýr að því leyti að það er Bjarni Randver sem er kærður, vegna tiltekins kennsluefnis.“ Hann skrifaði hinsvegar annað í bréfi til rektors í haust, eftir að hafa haft málið á borði sínu í yfir 20 mánuði: „Einnig tel ég ótímabært að fullyrða fyrirfram, án efnismeðferðar málsins, hver eða hverjir séu raunverulega kærðir í málinu.“ Þegar honum er bent á þetta misræmi svarar hann: „Þegar ég segi þarna „hverjir séu raunverulega kærðir“ meina ég í rauninni „hverjir beri ábyrgð“.“

Varðandi það atriði að Pétur hafi komið fram sem fulltrúi Bjarna fyrir siðanefndinni segir Pétur að það hafi hann aldrei gert. Engu að síður skrifaði hann bréfið sem Þórður vitnar í. Frásögn Bjarna og Péturs er sú að þeir hafi talið kæru Vantrúar léttvæga en Pétri var brugðið í brún er honum var tilkynnt kæran sem lá fyrir hjá siðanefndinni því Þórður hafi litið hana grafalvarlegum augum. Bæði Hjalti og Pétur hafa strax eftir fyrsta samtal við Þórð áhyggjur af því að neikvæð afstaða siðanefndar til Bjarna Randvers Sigurvinssonar verði til þess að erfitt geti reynst að ráða hann til starfa við deildina og því verði að leita sáttar svo ekki komi til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni, eins og Hjalti Hugason ritar í bréfi til Bjarna Randvers hinn 18. mars 2010. Pétur tekur undir þau orð og undrast um leið afstöðu siðanefndarinnar sem ekki enn hafði kynnt sér málið, en hann skrifar sama dag til Bjarna Randvers: „Mig setur hljóðan og ég spyr sjálfan mig: Gilda aðrar reglur um guðfræðideild en hinar deildir háskólans? Hvað um sagnfræði og bókmenntir?“

Ekki er hægt að áfrýja úrskurði siðanefnda háskóla og því geta úrskurðir þeirra gert út af við frama fræðimanna með mjög skjótum hætti. Dæmi um kærur á kennara í trúarbragðafræðum í háskólum nágrannalandanna eru mörg. Frægast eru dæmi Roy Wallis sem var einn af kennismiðum trúarlífsfélagsfræðinnar í rannsóknum á nýtrúarhreyfingum. Vísindakirkjan plantaði nemanda undir fölsku flaggi í námskeiði hjá honum og upphófust síðan kærur og rógsherferðir gegn honum. Wallis átti síðar eftir að fremja sjálfsmorð en aðalástæða þess er frekar rakin til skilnaðar hans við konu sína þótt þessi herferð hafi örugglega verið lóð á vogarskálarnar.

Pétur segir þá Bjarna hafa orðið mjög óttaslegna við það að nefndin hefði áður en hún hefði kynnt sér málið tekið svona neikvæða afstöðu. Bréfið hefði hann ritað undir þessum þrýstingi án vitundar Bjarna en hann hefði aldrei verið fulltrúi hans á fundum með nefndarmönnum.

Um bréfið hefur Bjarni eftirfarandi að segja: „Bréf Péturs Péturssonar frá 23. mars 2010 sem þú tilgreinir fékk ég ekki í hendur fyrr en núna í sumar skömmu áður en ég fór á fund rannsóknarnefndar Háskólaráðs HÍ 30. júní 2011. Það var í stórum skjalabunka sem HÍ hafði afhent lögmanni mínum Ragnari Aðalsteinssyni hrl. Fram að því hafði Pétur árangurslaust gert dauðaleit að þessu bréfi í fórum sínum og virðist hann aldrei hafa vistað afrit af því þegar hann prentaði það út á sínum tíma og fór með það til Þórðar Harðarsonar. Hann sýndi mér því aldrei bréfið sem var ekki gert með minni vitund og veitti ég því augljóslega aldrei samþykki mitt fyrir því.

Bréf Péturs til siðanefndar HÍ olli mér og ráðgjöfum mínum meðal háskólakennara talsverðum heilabrotum þegar siðanefndin tók á síðari stigum málsins að vísa til þess sem mikilvægs skjals í málinu. En á fundi Ragnars Aðalsteinssonar með siðanefndinni 6. janúar 2011 hafnaði hann vægi slíks skjals með öllu þar sem siðanefndinni hefði borið að hafa samband við hinn kærða strax í upphafi og ekkert slíkt umboð gæti komið frá öðrum en hinum kærða sjálfum. Það er rangt að Pétur hafi verið valinn sem fulltrúi minn á þessum meinta fundi 23. mars 2010 enda veitti ég honum aldrei slíka heimild. Einar Sigurbjörnsson hefur staðfest að hann fór aldrei fram. Pétur hefur að sama skapi ítrekað staðfest það skriflega að hann hafi heldur aldrei komið fram sem fulltrúi minn í þessu máli. Hann hefur lýst því yfir að rangur skilningur hafi verið lagður í bréf sitt en hér má einnig árétta að ef siðanefndin hefði nokkurn tímann haft fyrir því að ræða við mig þá hefði sá misskilningur verið leiðréttur. Í einum samræðum mínum við Þórð Harðarson, þegar ég hringdi heim til hans 14. apríl 2010 og hann neitaði að ræða við mig og funda með mér, ítrekaði ég að ég væri algjörlega mótfallinn þeim farvegi sem málið væri komið í.“

Nýr formaður

Til formennsku siðanefndarinnar er valinn Ingvar Sigurgeirsson, prófessor á menntavísindasviði HÍ. Nefndin er síðar meir stækkuð og eru valin inn í hana þau Gerður G. Óskarsdóttir, doktor í menntunarfræðum, og Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki. Nefndin er áfram neikvæð gagnvart Bjarna þótt hún virðist eiga erfitt með að átta sig á því hvað Bjarni er kærður fyrir og eru einn nefndarmeðlimur og lögfræðingur háskólans fengnir til þess að lista kæruna upp.

Samræður af innra vef Vantrúar sýna að vantrúarfélagar eru samt vissir um að nefndin haldi sömu stefnu og mörkuð hafði verið undir formennsku Þórðar Harðarsonar enda sitja hinir tveir nefndarmennirnir áfram allt kærumálið. Á innri vef Vantrúar skrifar Reynir Harðarson hinn 18. maí 2010: „Ef ný siðanefnd verður skipuð má segja að hún verði að komast að því að siðareglur hafi verið brotnar því annars er hún óbeint að dæma fyrri siðanefnd fyrir óheilindi og þóknast kvörturum innan HÍ. Við höfum því þumalskrúfurnar á henni ...líka.“

Viðhorf háskólakennara til málsins er annað enda skrifar Ástráður Eysteinsson, forseti hugvísindasviðs, í bréfi til Bjarna Randvers hinn 8. júní 2010: „Þú hefur gert prýðilega grein fyrir kennslu þinni og samhengi málsins. En fari svo ólíklega að siðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að svona megi ekki kenna, þá breytist þetta mál og mun ekki lengur snúast um þig í reynd, heldur okkur öll sem sinnum kennslu í túlkunarvísindum á háskólastigi.“

Eineltið verður opinbert

Um haustið 2010 fær Bjarni óvænt í hendur útprentun af samræðum félagsmanna á innri vef Vantrúar þar sem það fæst staðfest að ekki aðeins hefur verið um skipulagða herferð af hálfu Vantrúar að ræða heldur einnig að fulltrúar siðanefndarinnar og fólk í stjórnsýslu háskólans hafa verið í nánum samskiptum við félagsmenn Vantrúar um að koma höggi á hann. Sem dæmi virðist af skrifum Reynis Harðarsonar á innri vef Vantrúar sem hann hafi verið í stöðugu sambandi við Þórð, sem hafi lekið í þá upplýsingum um framgang málsins og um afstöðu hinna nefndarmannanna. Enginn nefndarmannanna vill kannast við að hafa lekið upplýsingum. Þegar Þórði er bent á að á innri vef Vantrúar komi meira að segja fram að hann hafi áframsent trúnaðarbréf til Reynis svarar hann því til að það hafi þá verið fyrir mistök. En hann bætir við: „Ég þekki enga aðra leið til að ná sáttum en að ná trúnaði fólks og trúnaði fólks nær maður með einkasamtölum við það. Eina viðleitnin mín í þessu máli var að sætta málsaðila.“

Auk þessa kemur í ljós að deildarstjóri á vísindasviði í HÍ, Baldvin Zarioh, er félagi í Vantrú, og lekur hann upplýsingum af framgangi málsins nokkrum sinnum inn á innri vef þeirra.

Á þessum tímapunkti ræður Bjarni sér lögfræðing, Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmann, sem gerir alvarlegar athugasemdir við málsmeðferðina. Hann krefst einnig fundargerða siðanefndarinnar og fær sumar sendar til sín seint en aðrar alls ekki.

Þrátt fyrir þetta sendir siðanefndin úrskurð frá sér 11. mars í ár, 2011, þar sem nefndarmenn hafna því að víkja vegna vanhæfis og vísa frá þeim gögnum sem sýna vanhæfi þeirra. Ragnar Aðalsteinsson segir úrskurð siðanefndarinnar vera fyrir neðan allar hellur og kærir hann til háskólaráðs.

Til að koma í veg fyrir að vanhæfiskrafan verði tekin fyrir í háskólaráði býður HÍ Vantrú 750.000 króna útgáfusamning. Umræðurnar fara fram leynt en eru gerðar með vitund og vilja stjórnsýslu HÍ og Ingvars Sigurgeirssonar, formanns siðanefndarinnar. Þegar þetta kemur í ljós skrifa 40 háskólakennarar háskólaráði bréf þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við Bjarna og gagnrýna harðlega málsmeðferðina alla og fara fram á að sjálfstæð nefnd verði skipuð til að rannsaka málið í heild sinni. Enginn kennari fær að skrifa undir yfirlýsinguna án þess að kynna sér ítarlega þau gögn sem lágu fyrir í málinu. Þeir eru á einu máli um að Bjarni hafi ekki gerst brotlegur við siðareglur HÍ.

Háskólaráð setur á laggirnar rannsóknarnefnd til að skoða störf siðanefndar HÍ.

Rannsóknarnefndin

Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar er sú að siðanefnd HÍ hafi sniðgengið eigin starfsreglur sem tilgreindar eru í siðareglum háskólans. Samskipti einstakra nefndarmanna við málsaðila utan formlegra funda hafi dregið úr gagnsæi og séu til þess fallin að veikja traust annarra málsaðila til nefndarmanna. Þá er fundið að því að siðanefndin hafi ekki virt andmælarétt hins kærða og tilraunir til sátta hafi verið gerðar án þess að hafa samráð við hann. Stjórnsýsla HÍ er einnig gagnrýnd enda starfaði lögfræðingur HÍ fyrir siðanefndina og má segja að hann hafi starfað gegn hagsmunum starfsmanns skólans, það er Bjarna.

En þótt niðurstaða rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir siðanefndinni og sigur fyrir Bjarna er erfitt að sjá að sá skaði sem búið er að valda honum verði bættur.

Vantrúarfélagar hafa ítrekað sakað hann um óheiðarleika og afbrot á borð við innbrot og þjófnað og kallað hann ónöfnum eins og andskotans hálfviti, hlandspekingur, BRandari og kaunfúll barmabrundull. Vantrúarfélagar leggja mikið upp úr eigin sáttfýsi sem snýst um sættir við HÍ í formi sakfellingar yfir Bjarna. Hvorki þeir né háskólayfirvöld virðast ætla að gera neitt með það að brotið hafi verið á réttindum hans og hann standi núna uppi með 1,3 milljóna króna lögfræðikostnað sem hefur verið honum nauðsynlegur til að verja rétt sinn. Þegar Bjarni sendir háskólaráði bréf til að spyrja hvort honum verði ekki bættur í það minnsta fjárhagskostnaðurinn sem af þessu hlaust svarar rektor því til að svo verði ekki og skrifar í bréfi sínu frá 18. október 2011: „Almennt er sá kostnaður sem til er stofnað við meðferð mála fyrir siðanefnd ekki á ábyrgð háskólans.“

Félagið Vantrú

Vantrú þekkja líklega flestir sem gagnrýnin samtök á kristna trú, samtök sem hafa gert vel í því að halda boðskap merkra höfunda einsog Richards Dawkins og Níelsar Dungal á lofti. Margir minnast líka stórskemmtilegs gjörnings sem þeir stóðu fyrir þegar félagsmaður þeirra klæddist búningi Svarthöfða úr stjörnustríðsmyndunum og kom sér fyrir á milli prestanna við setningu prestastefnu. En þótt þetta atvik hafi verið fyndið særði það líka marga trúaða menn sem líta á stundina sem heilaga.

En þegar samtökin Vantrú eru skoðuð þá reynist fleira búa að baki en það sem blasir við flestum. Eftir að hafa farið í gegnum 600 síður af samræðum þeirra af innri vef félagsins sem ekki voru ætlaðar til birtingar en hátt í 200 manns hafa aðgang að, kemur í ljós hvernig þeir hafa skipulagt baráttu gegn einum einstaklingi í umræðuþræði sem helgaður er honum einum. Í krafti sannfæringar sinnar um réttmæti eigin málstaðar ræða margir þeirra um hvernig best sé að draga úr trúverðugleika Bjarna sem fræðimanns og skipuleggja úthugsaðar þrýstiaðgerðir.

Heilagt stríð

Þannig skrifar sálfræðingurinn Reynir Harðarson á innri vef Vantrúar 12. febrúar árið 2010: „Kæru félagar. Klukkan 15:00 í dag lýstum við yfir heilögu stríði á hendur Bjarna Randveri og guðfræði í Háskóla Íslands.“ Reynir bætir síðan við: „Við munum berjast á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn.“ Svo tala þeir margoft um hvernig þeir skuli haga baráttu sinni gegn honum og öðrum sem verða á vegi þeirra. Í eitt skiptið er stungið upp á því að hefja líka einelti gegn Stefáni Einari Stefánssyni viðskiptasiðfræðingi án þess að hann tengist þessu máli nokkurn skapaðan hlut. Reynir skrifar strax: „Go for it. Megum ekki skilja svona plebba útundan í einelti okkar.“

Þegar síðan gögnin af innri vef Vantrúar leka út og öllum verður ljóst hvað þeim fór á milli þá bregðast þeir við með því að fullyrða að ekki hafi verið um neitt skipulagt einelti að ræða. Reynir Harðarson segir í bréfi til Siðanefndar HÍ 4. janúar 2011: „Ég hafna því alfarið að um einelti af okkar hálfu sé að ræða, hvað þá heilagt stríð... Þetta er hreinn þvættingur og meiðyrði.“ Valgarður Guðjónsson sem er penni á eyjan.is skrifar á síðu sína þar: „Ég veit ekki nein dæmi um skipulagt einelti, les innra spjallið nánast undantekningarlaust – og ef eitthvert skipulegt einelti væri í gangi þá væri ég ekki lengur í Vantrú.“

Hvers vegna þessi félagsskapur hagar sér svona er erfitt að segja til um en þó má kannski staldra við orð eins þeirra á innri vefnum sem segir að félagsskapur Vantrúar sé byggður á Overton-glugganum. Um leið og hann er búinn að skrifa þetta sussar einn af forystumönnum Vantrúar á hann og segir að hans skoðun sé að Overton-glugginn virki best ef fólk viti ekki af því að það sé verið að notast við hann og því skuli ekki ræða hann.

Overton-glugginn

Þetta hugtak stafar frá athugunum sem hinn bandaríski Joseph Overton gerði á pólitík og pólitískri umræðu. Hans kenning var að pólitíkusar, óháð því hvað þeim finnst í raun og veru, þori ekki að styðja málefni eða stefnur nema þau sem rúmast innan þess sem telst eðlilegt hjá almenningi og flokkast ekki undir öfgar. Hans kenning var að hópar eða „think-tanks“ gætu aftur á móti fært þennan ramma eða þennan glugga til, þannig að það sem telst ekki innan hans í dag teljist innan hans á morgun. Það er síðan gert með því að hafa áhrif á umræðuna og færa hana til. Það skýrir kannski óbilgirni sumra þeirra sem tjá sig í umræðunni að þeir nálgast hana ekki opnum huga, heldur hafa þeir að markmiði að færa umræðuna til. Þá væntanlega til þess að ná því sem þeir segja markmið sitt á vefsíðu félagsins: „...að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu.“ Kristin trú er væntanlega það hindurvitni sem er áhrifamest í íslensku samfélagi að mati Vantrúar, enda er tal Vantrúarfélaga mjög herfræðilegt og taktískt á innri vefnum. Lýsing Óla Gneista Sóleyjarsonar, fyrrverandi formanns Vantrúar, á samtali sem hann átti við mann utan félagsskaparins sem segist ekki skilja hvers vegna þeir skrifa svona harkalega er athyglisverð í þessu ljósi en þar segir Óli Gneisti: „Það skilur enginn taktík okkar.“

Svakalegt orðbragð

Á vefsíðum Vantrúarfélaga má sjá að þeir hafa staðið að útgáfu á mörgum góðum verkum og þar má líka sjá fullt af röklegum og skemmtilegum greinum, en í bland eru greinar og bloggfærslur sem eru svo óvægnar og orðfærið svo svakalegt að fáir geta fellt sig við það.

Nefna má sem dæmi um orðalagið eftirfarandi byrjun á grein Þórðar Ingvarssonar, ritstjóra vefs Vantrúar og stjórnarmeðlims félagsins, sem birt var á bloggsíðu hans um Sigurbjörn Einarsson biskup, í tilefni af því að eitt ár var liðið frá andláti Sigurbjörns: „Sirka 1 ár liðið... frá því að þessi frathaus, prumpuhali, rugludallur, geðstirða gamalmenni, sérlegur aðdáandi hinna myrku miðalda og baráttumaður fyrir endurupptöku þeirra helgu daga, óskammfeilin karlremba, trúarbulla, andlegi ofbeldisseggur, fordómafulli drullusokkur og siðblindi síkópati féll frá.“ Greinin heldur áfram í svipuðum stíl og síðan tekur við leikrit þar sem hann bætir við Karli Sigurbjörnssyni, syni hans og núverandi biskupi, og sambandið milli þeirra er gert kynferðislegt og öll verður þessi grein ógeðfelldari og ógeðfelldari. Þá tala nokkrir af forystumönnum Vantrúar um þá sem boða börnum kristna trú sem barnaníðinga. Þannig talar Matthías um prestastéttina eins og hún leggur sig sem „barnaníðinga“ í grein sinni Berjum presta sem birt var á bloggvef hans Örvitanum 26. júlí 2005. Barnaníðs-ásakanir þeirra ná víðar en til prestastéttarinnar, þannig skrifar Þórður Ingvarsson í greininni Gráðugir barnaníðingar þann 19. september árið 2007 um þá sem ætla að einkavæða Orkuveituna: „Þessir fégráðugu kónar, þessir óforskömmuðu barnaníðingar...ég hef órökstuddan grun að þeir riðlast á börnum.“ Þórður sakar líka Pál Magnússon útvarpsstjóra og Þórhall Gunnarsson þáverandi dagskrárstjóra RÚV um að reka barnavændishring í grein sinni Frétta- og dagskrárstjóri útvarpsins frá 2007 og segir í annarri grein um Ómar Valdimarsson, upplýsingafulltrúa Impregilo: „Ómar þú ert barnaníðingur“.

Vantrúarfélagar

Þegar talað er við Vantrúarfélaga eru þeir mjög ósáttir við að efni af innra vef félagsins þar sem þeir spjölluðu saman um taktík í baráttu sinni gegn Bjarna hafi verið lekið út. Aðgang að spjallinu á innra vefnum hafa meira en 200 manns en þeir vilja meina að þar sé spjallað í hálfkæringi.

Matthías Ásgeirsson er einn stofnenda Vantrúar og fyrrverandi formaður þess. Hann viðurkennir að stundum skrifi þeir og tali harkalega. En það hafi verið meira um það áður fyrr. Þegar honum er bent á skrif Þórðar Ingvarssonar, sem er núverandi ritstjóri vefsíðu Vantrúar, um fyrrverandi biskup Íslands, Sigurbjörn Einarsson, þá segist Matthías sammála því að þar sé farið yfir strikið en bendir á að hún hafi ekki fengist birt á síðu Vantrúar. „Þórður birti þetta á eigin bloggsíðu og við ráðum því ekki hvað fólk gerir á eigin bloggi, það er ekki í nafni Vantrúar.“

Aðspurður um eigin notkun á orði einsog barnaníðingar þegar hann er að tala um prestastéttina í heild í einum pistli sínum segir hann að í fyrsta lagi þurfi að skilja á milli þess hvenær menn eru sagðir kynferðislegir barnaníðingar og barnaníðingar hugans. „Einnig þess hvenær verið er að segja hlutina í hálfkæringi og hvenær í alvöru. En þessi grein var skrifuð í reiði og ég held að þetta sé eina dæmið um að ég noti þetta orð um prestastéttina. En getur þú skilið hugarheim föður sem á tvær dætur á leikskóla sem eru teknar úr hópnum meðan presturinn kennir hinum börnunum að biðja bænir? Föður sem gefst upp og lætur dætur sínar frekar sitja undir trúboði heldur en að vera hafðar útundan. Ég skal bara játa það að ég var algjörlega brjálaður og ég fékk stundum útrás á blogginu mínu. Það má vel vera að ég megi skammast mín fyrir sumt af því, en annað stend ég bara algjörlega við. Þegar ég las síðan grein þar sem prestur talaði um að börn væru „heppilega trúgjörn“ þá sá ég rautt og skrifaði þessa grein.

En hefur þú séð það sem prestar hafa kallað okkur Vantrúarfélaga? Ég veit um í það minnsta eitt dæmi þarsem séra Þórhallur Heimisson kallar okkur níðinga.“

Aðspurður hvað honum finnist um það að samtökin hafi lýst yfir heilögu stríði gegn stundakennara í háskólanum, svarar hann strax: „Þú gerir þér grein fyrir því að tal um „heilagt stríð“ var djók – er það ekki? Það var hlæjandi broskarl og allt með athugasemdinni. Á að nota það gegn fólki að það slái á létta strengi í einkasamræðum?“

Blaðamaður Morgunblaðsins bendir á að þótt það hafi verið settur broskarl fyrir aftan setninguna þá fylgdi í kjölfarið eitthvað sem margir myndu líkja við stríð; greinar og komment á netinu sem skipta hundruðum blaðsíðna þar sem er ráðist mjög harkalega á Bjarna sem er ekki með neinn hóp í kringum sig og á ekki möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér í þessu flóði. Matthías er ekki tilbúinn til að samþykkja þetta. „Ég er ekki með nákvæma tölu yfir þetta, en ég held að það hafi ekki birst nema 30 – 40 greinar frá vantrúarfélögum um þetta mál. Og þetta mál skiptir okkur verulegu máli. Að okkar mati tók hann orð okkar úr samhengi þegar hann vitnaði í okkur í glærum sínum og hann kynnir okkur sem orðljóta fylgismenn Dawkins sem leggja trúmenn í einelti og kynda undir kynþáttahatri og ofbeldi. Þetta er ekki eitthvað sem við sættum okkur við,“ segir Matthías.

Fullyrðingar um að ekkert stríð hafi verið háð gegn stundakennaranum verður að skoða í því ljósi að Bjarni sjálfur hefur safnað um hundrað greinum sem samtals eru yfir sjö hundruð blaðsíður þar sem aðalefnið er gagnrýni á hann eða að hann kemur til umfjöllunar. Síðasta greinin birtist á eyjan.is í fyrradag og virðist ekkert lát á þessu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert