Vantrú svarar fyrir sig

Vantrú lagði fram kæru á hendur stundakennara við Háskóla Íslands …
Vantrú lagði fram kæru á hendur stundakennara við Háskóla Íslands þann 4. febrúar 2010. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vantrú svarar ásökunum um einelti á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni, stundakennara og nemanda við Háskóla Íslands, í pistli á vefsíðu sinni í dag. Pistillinn ber yfirskriftina „Hvaða einelti?" og þar reifar Vantrú í hverju meint einelti á að hafa falist og hvernig Bjarni varðist.

Þar kemur fram að frá því hálft ár var liðið frá því málið hófst hafi Bjarni orðið sér úti um stolin gögn af lokuðum spjallvef Vantrúar. Þar hafi verið um að ræða trúnaðargögn; einkasamræður meðlima félagsins sín á milli sem fram fóru í algjörum trúnaði. Vantrú hefur kært þjófnað á gögnunum til lögreglunnar.

Pistlahöfundur Vantrúar segir félagsmenn hafa verið samstarfsfúsa og viljað leita sátta eftir að málið fór inn á borð siðanefndar Háskóla Íslands en Bjarni hafi hafnað öllum sáttum og gríðarleg pressa hafi verið sett á siðanefndina af Bjarna og stuðningsmönnum hans.

„Stundakennarinn nýtti þjófstolnu gögnin óspart sem vörn í málinu. Þeim hefur verið dreift víða, bæði innan og utan HÍ. Þetta gerði BRS þó ekki fyrr en eftir að hann hafði meðhöndlað gögnin þannig að þau hentuðu þeirri mynd sem hann vildi draga upp af félaginu og félagsmönnum. Að lokum hafa BRS og stuðningsmenn hans ítrekað farið í fjölmiðla með málið. Má þar nefna Pressuna, Morgunblaðið og, nú síðast Kastljós.  Í öll þau skipti var notast við skrumskælingu af þjófstolnu trúnaðargögnunum eins og ekkert væri sjálfsagðara. Slíkt er augljóst brot á lögum,“ segir í pistlinum.

Þá segir að Bjarni hafi ekki bara látið sér nægja að verjast kæru Vantrúar heldur hafi aðalatriðið verið að reyna að koma höggi á félagið Vantrú og einstaka félagsmenn og meðlimir í félaginu hafi þegar fundið fyrir því.

Stór umfjöllun um málið var í síðasta Sunnudagsmogga.

Pistilinn í heild sinni má sjá á Vantru.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert