Hálka og snjóþekja víða um land

Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að hálka sé á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Víða sé nokkur hálka á Suðurlandi og jafnvel snjóþekja.

Þá eru hálkublettir á Reykjanesbraut og víða á Reykjanesi. Ófært er um Suðurstrandarveg og á milli Grindavíkur og Hafna.

Snjóþekja og hálka er ennfremur um allt land og er unnið að því að moka og hreinsa vegi samkvæmt tilkynningunni.

Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Vesturlandi og víða á Vestfjörðum. Snjóþekja og hálka er í Ísafjarðardjúpi og þæfingur á Klettshálsi.

Þá er áframhaldandi hálka og éljagangur á Norðurlandi og víða snjóþekja á útvegum. Hálka eða hálkublettir og sumstaðar skafrenningur er á Austurlandi og þungfært á Öxi.

Á Suðausturlandi er ennfremur einhver hálka en aðallega hálkublettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert