Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út þrívegis í nótt til aðstoðar. Mikið hefur verið um slíkar beiðnir síðustu daga og má þær í flestum tilvikum rekja til rysjóttar veðráttu.
Í nótt fóru björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu á Nesjavallaleið en þar hafði fólk fest bíl sinn í snjó. Vel gekk að leysa úr því og koma fólkinu til byggða. Þá fóru liðsmenn björgunarsveitarinnar Brimrúnar á Eskifirði upp í Oddsskarð þar sem Skoda-bíll var fastur í skafli og fimm manns sem í bílnum voru komust hvorki lönd né strönd.
Þá var bátur að losna upp í Sandgerðishöfn. Vel fór hins vegar í því máli og liðsmenn Sigurvonar bundu bátinn tryggilega við bryggju.
Vegagerðin segir að óveður sé á Austfjörðum og með norðausturströnd landsins. Eru vegir víðast hvar flughálir og í raun er ekkert ferðaveður.
Nánar um færð á vegum á vef Vegagerðarinnar.