Ráðherra gefi heimilunum grið

heimilin.is

Hagsmunasamtök heimilanna hafa krafist þess í bréfi til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að hann gefi fjölskyldum í landinu og heimilum grið og frið fyrir aðförum fjármálastofnana „á grundvelli ólögmætra gengistryggðra lána sem enn ríkir mikil óvissa um“.

Samtökin sjá ekki hvernig er hægt að réttlæta fyrir fólki eignasviptingu með endurútreikningum á lánum sem líklegt getur talist að fáist ekki staðist fyrir dómstólum.

Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna varða meinbugir á lögum nr. 151/2010, eða túlkun fjármálastofnana sem nú ganga fram með ranga afturvirka útreikninga, lögvarða hagsmuni hjá stórum hópi lántakenda hér á landi og þá ekki aðeins fyrir innheimtu afborgana sem skortir nauðsynlegar lagaheimildir, heldur einnig vegna vörslusviptingar, nauðungarsölu og annarra þungbærra innheimtuaðgerða sem fjármálastofnanir grípa til á grundvelli laganna nánast á degi hverjum.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna krefst þess að stjórnvöld sjái til þess að öllum aðfararbeiðnum, vörslusviptingum, fjárnámsbeiðnum, nauðungarsölum og gjaldþrotabeiðnum verði slegið á frest í þeim málum sem réttaróvissa ríkir. Hæstiréttur hafi ekki sagt álit sitt á lögmæti laganna og því ríki réttaróvissa í málinu. „Í slíkri stöðu ber stjórnvöldum að tryggja hagsmuni almennra borgara,“ segir í frétt frá Hagsmunasamtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka