Íslendingar og Færeyingar hafa frest þar til í næsta mánuði til að komast að samkomulagi um stjórn makrílveiðanna. Að öðrum kosti mun Evrópusambandið beita löndin refsiaðgerðum, segir Maria Damanaki, sem fer með sjávarútvegsmál hjá framkvæmdastjórn ESB.
Samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar verður haldinn samningafundur um málið í næsta mánuði.
Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum um makrílveiðar, sagði fyrr í vikunni í samtali við mbl.is að framkvæmdastjórn ESB ætti fremur að verja kröftum sínum í að stuðla að samkomulagi um stjórn makrílveiðanna en ýja að innflutningsbanni og öðrum viðskiptaaðgerðum sem fari í bága við alþjóðlega viðskiptasamninga.
Þetta kemur fram í svari Tómasar við þeirri tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að samþykkt verði reglugerð sem geri ESB kleift að beita þjóðir refsiaðgerðum sem stunda ósjálfbærar fiskveiðar og standa utan ESB. M.a. er rætt um innflutningsbann.
Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar eru löndin tvö, Ísland og Færeyjar, ekki nefnd á nafn, samkvæmt frétt AFP sem hefur tillöguna undir höndum.
Sjávarútvegsráðherra Skotlands, Richard Lochhead, sem leiðir samninganefnd Bretlands, segir að það að beita ríki refsiaðgerðum sé áhrifamikil leið en skosk stjórnvöld nefna bæði Ísland og Færeyjar á nafn þegar rætt er um slíkar refsiaðgerðir.
Auk Breta styðja Írar, Frakkar, Þjóðverjar og Danir tillögu Damanaki.
Eins og greint hefur verið frá á mbl.is náðist ekki samkomulag fyrir síðustu helgi á milli ESB, Noregs, Íslands og Færeyja um skiptingu makrílstofnsins á fundi sem fram fór í Clonakilty á Írlandi síðastliðinn föstudag.