Hærri fargjöld og erfiður róður

mbl.is/Brynjar Gauti

Fargjöld í innanlandsflugi hækka og rekstur Flugfélags Íslands verður erfiður þegar hækkanir á lendingar- og farþegagjöldum á Reykjavíkurflugvelli verða að veruleika á næsta ári. Þetta segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Hækkanirnar nema 250 milljónum, þær eru samkvæmt samgönguáætlun til næstu fjögurra ára og eiga að koma til framkvæmda í tveimur jafnstórum áföngum 2012 og 2013. Þetta verður nýtt í framkvæmdir og viðhald.

Í fréttaskýringu um auknar álögur á innanlandsflugið í Morgunblaðinu  í dag segir Árni gjaldahækkunina ekki hafa verið kynnta forsvarsmönnum flugfélagsins. Hann segist hafa átt von á einhverjum hækkunum um áramótin, en að þær yrðu nokkru minni. „Við lásum í samgönguáætluninni að okkur ber að borga 250 milljónum meira til hins opinbera. Þetta mun augljóslega hafa áhrif á fargjöldin til hækkunar, það er alveg ljóst. Það er ekkert óeðlilegt við að gjöld hækki í samræmi við verðlag og annað slíkt. En að hækkunin yrði í þessum stærðarflokki; því áttum við engan veginn von á. Þetta verða 125 milljónir á næsta ári og hefur veruleg áhrif á reksturinn.“

Að sögn Árna hafa ýmis gjöld verið lögð á félagið undanfarin ár. Erfitt sé að sjá hversu lengi það geti haldið áfram. „Það er verið að tvískatta okkur vegna kolefnisblásturs; bæði vegna útblásturs á eldsneyti sem við greiðum til ríksins og frá janúar 2012 þurfum við að borga samkvæmt evrópsku kerfi, ETS. Síðan hafa bæði lendingar- og farþegagjöld hækkað á okkur og skattar á eldsneyti og eldsneytisverðið sjálft hefur hækkað.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert