Starfsmenn ráðuneytanna og stofnana sem undir þau heyra ferðuðust meira en 23 milljónir kílómetra og heimsóttu 76 lönd fyrstu níu mánuði ársins. Ferðakostnaður, þ.e. fargjöld og greiddir dagpeningar, námu um 1,2 milljörðum kr. á þessu tímabili.
Þetta má lesa úr svörum ráðuneytanna við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar alþingismanns um hve margar utanlandsferðir hafi verið farnar á þeirra vegum og stofnana þeirra fyrstu níu mánuði þessa árs. Einnig til hvaða landa hafi verið farið, í hvaða erindum og hver heildarkostnaðurinn hafi verið vegna fargjalda og greiddra dagpeninga. En hvers vegna lagði Ásmundur fram fyrirspurnina?
„Við umræður um fjárlagafrumvarpið var því jafnan haldið fram að það væri ekki hægt annað en að skera niður í heilbrigðismálum og velferðarmálum. Ríkisstjórnin sagði að það væri ómálefnalegt að gagnrýna niðurskurðinn,“ sagði Ásmundur. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist hann hafa tekið eftir gríðarmiklum ferðalögum á vegum hins opinbera m.a. á fundi, ráðstefnur og sýningar.
„Manni sýnist þetta ekki hafa dregist saman eftir hrunið. Það er með ólíkindum að horfa upp á miklar utanlandsferðir vegna Evrópusambandsumsóknarinnar. Mér finnst að um 350 ferðir til Belgíu fyrstu níu mánuði ársins og fleiri ferðir vegna þessarar umsóknar til annarra landa en Belgíu staðfesti að sá kostnaður leggist á öll ráðuneyti og stofnanir þótt hann sé ekki tilgreindur sérstaklega í fjárlögum,“ sagði Ásmundur.