Unnið að hugmyndum um lækkun trjáa

Reykjavíkurflugvöllur og Öskjuhlíð séð úr lofti.
Reykjavíkurflugvöllur og Öskjuhlíð séð úr lofti. mbl.is/Jakob Fannar

Isavia ohf. segist hafa í samstarfi og góðri sátt við garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar unnið að hugmyndum um lækkun trjáa eða grisjun beint undir aðflugs- og aðflugsljósaferli svonefndar austur-vestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar í Öskjuhlíð.

Hafi félagið óskað samþykkis flugmálastjórnar Íslands við að aðflugsferlum að svonefndri austur-vestur flugbraut á Reykjavíkurflugvelli yrði háttað með ákveðnum hætti sem myndi takmarka lækkun trjágróðurs við 40-166 tré beint undir aðflugs- og aðflugsljósaferli flugbrautarinnar í Öskjuhlíð. Á þessu svæði sé skógurinn  mjög þykkur og nýtist illa til útivistar.

Á vef Isavia segir að umhverfisráð Reykjavíkur hafi í gær hafnað ósk Isavia um að lækka einstök tré á litlu svæði í Öskjuhlíð sem skagi upp í hindrunarflöt aðflugs að   austur-vestur flugbrautinni.

Segir Isavia að um 60–65% flugumferðar á Reykjavíkurflugvelli sé beint um viðkomandi flugbraut til þess að hávaði frá flugvélum skapi sem minnsta truflun. Fagaðilar hjá Isavia, flugmálastjórn og Reykjavíkurborg hafi allt undanfarið ár kannað kosti til lausnar á þessum vanda, þ.á m. brattara aðflug, færslu á lendingarsvæði flugbrautarinnar og lækkun trjáa á skógræktarsvæði. Að beiðni flugmálastjórnar Íslands var framkvæmt áhættumat á umræddum kostum og komu starfandi flugfélög á Reykjavíkurflugveli að þeirri vinnu. M.a. var verkfræðistofa fengin til þess að mæla út hvaða tré hefðu áhrif á hindranaflötinn.

„Mjög bratt aðflug og breytingar á flugbrautinni hafa í för með sér verulega röskun – bratt aðflug og flugtak er ekki á færi allra flugvélagerða og krefst sérstakrar þjálfunar flugmanna auk þess sem það skapar flugfarþegum óþægindi. Færsla lendingarsvæðis innar á flugbrautina þýðir að flugvélar sem algengastar eru í innanlandsflugi gætu ekki notað brautina nema hún yrði lengd til vesturs miðað við aðflugsferla sem notast yrði við. Slík framkvæmd yrði mjög kostnaðarsöm og þyrfti m.a. að leggja bifreiðaakbraut til Skerjafjarðar í jarðgöng undir flugbrautina," segir Isavia.

Vefur Isavia

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert