Synir Stígs koma sterkir inn

Fagráð í nautgriparækt hefur ákveðið naut sem notuð verða til …
Fagráð í nautgriparækt hefur ákveðið naut sem notuð verða til kynbóta. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Fagráð í nautgriparækt hefur ákveðið hvaða naut úr árganginum 2005 eru verðug til frekari notkunar, eins og það er orðað á naut.is, vef Landssambands kúabænda. Um stóran árgang er að ræða en alls lauk 31 naut afkvæmarannsókn.

Umræddur árgangur er að stærstum hluta synir Stígs, eða 22 naut. Teinn á sex syni og Bylur og Hersir eiga sinn hvor. Segir á naut.is að þessi árgangur einkennist af nautum sem gefa miklar afurðir og hafa sterka byggingu, júgur- og spenagerð yfirleitt mjög sterk en mjaltir og skap breytilegt.

Sem nautsfeður var ákveðið að nota Vindil frá Ytri-Tjörnum og Birting frá Birtingaholti I. Báðir eru þeir með 114 í kynbótaeinkunn, undan Stíg og dætrum Kaðals.  Naut sem koma ný í almenna notkun eru, einkunn í sviga: Baugur frá Kotlaugum (113), Herkúles frá Bessastöðum (107), Frami frá Skúfsstöðum (111), Sússi frá Hóli (106) og Röskur frá Brúnastöðum (113). Þá var ákveðið að taka Kola frá Sólheimum (117) til notkunar sem nautsföður, en hann er undan Fonti og Kaðalsdóttur.

„Allir þessir nýju nautsfeður eiga það sameiginlegt að fjöldi dætra þeirra sem lokið hafa 1. mjaltaskeiði er takmarkaður, á bilinu 26-38, þannig að kynbótamat fyrir afurðasemi getur tekið breytingum eftir því sem fleiri dætur ná þeim áfanga. Dætur með efna- og frumutölumælingar og útlitsdóm eru þó mun fleiri. Þegar fyrstu nautkálfarnir undan þessum nautum koma í heiminn næsta haust, verður búið að vinna nýtt kynbótamat og hægt að endurskoða nautsfeðravalið ef tilefni þykir til," segir m.a. á vef kúabænda, naut.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert