Þrjú útköll á Holtavörðuheiði

Árvakur/Ómar

Björgunarsveitin Húnar í Húnaþingi vestra hafði í nógu að snúast síðasta sólarhringinn en beðið var þrisvar um aðstoð hennar.

Hafði fólk lent í vandræðum á Holtavörðuheiði í gær og nótt. Fyrsta útkallið kom upp úr klukkan fimm í gær en þá lenti ökumaður í vandræðum er bíll hans endaði utan vegar á heiðinni og þurfti tvo björgunarsveitarbíla til að spila bílinn upp á veginn aftur, segir í frétt á Feyki.

Annað útkallið kom um klukkan tíu í gærkvöldi. Þá óskaði ökumaður eftir aðstoð norðan í heiðinni en samkvæmt heimasíðu Húna treysti hann sér ekki lengra vegna hálku.

Síðasta aðstoðarbeiðnin barst svo rétt fyrir eitt í nótt en þá hafði bíll lent utan vegar norðan í heiðinni. Fólkið í þeim bíl fékk far niður af heiðinni í björgunarsveitarbíl en bíll þess skilinn eftir og verður hann sóttur í dag. Flughálka var á heiðinni í gærkvöldi og stórvarasamt að vera á ferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert