Undirstrikar óvissu hjá stjórninni

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. MBL/Ómar Óskarsson

„Maður skynjar að eitthvað er í aðsigi þegar farið er að bjóða manni góðan daginn oftar en eðlilegt getur talist. Þegar sama fólkið fer að bjóða manni góðan daginn nokkrum sinnum á dag fer það að hringja bjöllum,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, um vísi að tilhugalífi stjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar. 

Eins og fram hefur komið hafa farið fram viðræður milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar annars vegar og Hreyfingarinnar hins vegar um mögulega aðkomu síðastnefnda flokksins að stjórninni. 

Þór segir viðræðurnar á frumstigi.

„Umræðan var sem fram fór í gær og í fyrradag getur varla talist formleg. Það var farið yfir sjónarmið og hversu langt menn væru tilbúnir að ganga.“

- Munu viðræðurnar halda áfram fyrir áramót?

„Ekki fyrir áramót. Nei. Ekki hvað varðar stuðning við ríkisstjórnina. Það mun hins vegar örugglega eitthvað gerast í ráðherramálum fyrir ríkisráðsfundinn.“

Finnst ríkisstjórnin slæm

- Hvað segja þreifingar ríkisstjórnarflokkanna við Hreyfinguna um stöðu stjórnarinnar?

„Mér finnst þessi ríkisstjórn að megninu til slæm. Mér finnst hún ekki vera að gera rétta hluti.“

- Er þetta skref því stigið núna af því að skútan er farin að leka?

„Ég held að það gefi auga leið að þau væru ekki að tala við okkur nema af því að þau eru að reyna að halda meirihluta. Það er uppi mikil óvissa í stjórnarliðinu vegna fyrirhugaðra breytinga á ráðherraliðinu.“

Strandar á skuldamálunum

- En hvað með skuldamál heimilanna? Hvernig skynjarðu áhuga ríkisstjórnarinnar á að koma til móts við sjónarmið ykkar þar?

„Það strandaði á því máli eins og svo mörgum öðrum. Okkur fannst VG og Samfylkingin ekki vera tilbúin að ganga nógu langt í þessum málum.“

- Segjum sem svo að eftir áramót verði ykkur boðið að ganga í stjórnina gegn því að það verði farið út í afskriftir á skuldum heimila. Ef sú yrði raunin værirðu tilbúinn að skoða aðild að ríkisstjórninni fyrir alvöru?

„Við höfum frá upphafi gefið út að við höfum engan áhuga á embættum, ráðherrastöðum, formennsku í nefndum eða stöðu forseta þingsins. Við erum svo fáliðuð að við höfum ekki efni á að missa fólk í slíkar stöður. Það yrði þá fyrst og fremst þannig að við í Hreyfingunni myndum koma þeim stefnumálum sem við leggjum mesta áherslu á dagskrá með dagsetningum sem ekki væri hægt að víkja undan.“

Vilja ljúka aðildarviðræðunum

- Hvað með ESB-umsóknina?

„Við vorum fylgjandi aðildarumsókninni en greiddum atkvæði gegn henni á sínum tíma vegna þessarar Icesave-tengingar sem kom í ljós. Við erum samt enn þeirrar skoðunar að það eigi að ljúka þessum aðildarviðræðum.“

- Þið gerið því ekki kröfu um að aðildarviðræðum verði slitið?

„Nei.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert