Allir kátir í nýárssjósundi

Frá nýárssjósundinu í Nauthólsvík í dag.
Frá nýárssjósundinu í Nauthólsvík í dag. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikil og góð þátttaka var í nýárssjósundinu í Nauthólsvík í dag, frá klukkan ellefu til eitt, og frábærlega viðraði á sundgesti.

Að sögn Unu Sighvatsdóttur, blaðamanns Morgunblaðsins sem tók þátt í sundinu, var mikil mæting, potturinn fullur allan tímann og stöðug endurnýjun af fólki. Hún reiknar með að fjöldi gestanna hafi að minnsta kosti farið vel á annað hundraðið.

Hitastig sjávar var mínus ein gráða á celsíus og lofthiti í kringum frostmark. Logn var og bjart yfir sléttum Fossvoginum. „Það var afskaplega góð stemning, allir rosalega kátir og þarna var fólk á öllum aldri, bæði börn og eldra fólk. Börnin voru nú samt aðallega í pottinum og fóru ekki mikið út í. Sumir gestir komu þarna aðvífandi á gönguskíðum áður en þeir skelltu sér í sjósundið,“ segir Una.

Margir komu vel útbúnir með alls kyns hlífðarfatnað úr ull, jafnt sem öðrum nýstárlegri efnum. Ein kona kunni þá list að láta fara vel um sig og eftir sundsprettinn fór hún í pottinn með heitt súkkulaði á hitabrúsa, hellti sér í bolla og var meira að segja með léttþeyttan rjóma meðferðis í flösku til að hafa súkkulaðið alveg fullkomið.

Höfðu vanir sjósundmenn á orði að þeir hefðu sjaldan farið í sjóinn kaldari í Nauthólsvík en einmitt í dag.

Fólk slappaði af í heita pottinum á eftir.
Fólk slappaði af í heita pottinum á eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert