Framboð Ólafs Ragnars ekki útilokað

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Reuters

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands telur ekki útilokað að Ólafur Ragnar Grímsson bjóði sig aftur fram til forseta. Þetta sagði Ólafur í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld.

Eins og kunnugt er gaf Ólafur Ragnar til kynna í nýársávarpi sínu að hann hygðist ekki bjóða sig aftur fram til að gegna forsetaembætti.

Ólafur Þ. Harðarson bendir hins vegar á að hann hefði aldrei sagt berum orðum að hann ætlaði að hætta.

Í ræðunni rakti Ólafur Ragnar framtíðaráform sín og sagði að kröftum sínum væri líklega betur varið á öðrum vettvangi í framtíðinni.

„Hann útskýrði með býsna afgerandi hætti frá sinni eigin niðurstöðu um að hann ætlaði ekki í framboð og að hann vildi sinna þjóðinni með öðrum hætti, sinna norðurslóðamálum og umhverfismálum og þess háttar,“ segir Ólafur Þ.

„Ég lít á þetta þannig að hann hafi sagt við þjóðina: „Ég hef ákveðið að hætta.“ En hins vegar kannski hélt hann opinni ofurlítilli glufu, það er að segja að hann sagði ekki að það kæmi ekki til greina undir neinum kringumstæðum að hann færi í framboð. Þannig að ef þjóðin gefur það til kynna á komandi vikum og mánuðum, með mjög öflugum hætti, að hún vilji að hann fari inn í fimmta kjörtímabilið þá myndi ég nú ekki útiloka að hann myndi hugleiða það.“

Lilja Mósesdóttir tók í sama streng á Facebook síðu sinni fyrr í dag. „Mér fannst Ólafur Ragnar gefa í skyn að hann vildi láta af störfum sem forseti en væri tilbúinn að halda áfram um sinn eða þar til ný stjórnarskrá og Icesave-málið væru komin í höfn,“ sagði á síðu hennar.

Frétt mbl.is um ummæli Lilju Mósesdóttur á Facebook

Frétt ruv.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert