Skattfrelsi vegna húsnæðisafborgana

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

„Við viljum nýta skattkerfið til að leysa úr vanda yfirskuldsettra heimila og takast á við lánsveð og skort á greiðsluvilja,“ segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á heimasíðu sinni í dag og reifar þar hugmyndir sem flokkurinn hafi sett fram.

Þetta væri hægt að gera með því að afborganir á húsnæðislánum yrðu undanþegnar skatti upp að vissu marki, til dæmis ein til tvær milljónir á ári.

„Skattaafslátturinn yrði svo nýttur sem viðbótargreiðsla inn á húsnæðislánin. Þannig gætu heimilin greitt töluvert meira inn á lánin sín án aukins kostnaðar fyrir þau. Þessi aðferð gæti komið til móts við þann hóp sem hefur gert sitt besta til að standa í skilum, þrátt fyrir að hafa tapað stórum hluta af eigin fé í fasteignum sínum,“ segir Eygló.

Tekjur ríkissjóðs myndu dragast saman yrði þessi leið farin segir hún en á móti yrðu greiðslur ríkisins í vaxtabætur lægri og tekjur Íbúðalánasjóðs myndu aukast. „Við viljum að fulltrúar allra þingflokka og sérfræðingar komi að útfærslu á þessari hugmynd í samvinnuanda og að frumvarp verði lagt fram af ráðherra á vorþingi,“ segir Eygló að lokum.

Heimasíða Eyglóar Harðardóttur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert