Fyrsti alvarlegi brotsjórinn

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Uppgjör er hafið innan Samfylkingarinnar og urgur í flokksmönnum eftir atburðarás síðustu daga, að því er fram kemur í fréttaskýringu í Sunnudagsmogganum.

Harðvítug orðaskipti voru á flokksstjórnarfundinum fyrir áramót, þar gekk „brotsjór“ yfir forystu flokksins og voru sumir orðnir tvístígandi um að tillagan um breytingar á ráðherraskipan yrði felld og það slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu í kjölfarið. Skiptar skoðanir eru þó um, hvort innistæða hafi verið fyrir því á fundinum.

Sumir eru á því að efnt hafi verið til átakanna til að slá skjaldborg um Árna Pál Árnason, sem var vikið úr ríkisstjórn. Aðrir halda því fram að þarna hafi margvísleg óánægja fundið sér farveg, m.a. yfir því að Vinstri grænum hafi verið afhent atvinnuvegaráðuneytið, flokki sem ekki geti talist neitt sérlega „atvinnulífsvænn“. Þá hafi komið fram gagnrýni á „leyndarvinnubrögð“ forystu flokksins, sem hafi afhjúpast í því að ráðherrakapallinn væri kynntur illa og seint og hversu „ómarkviss og óljós“ hann væri.

Leitt er líkum að því af áhrifamönnum innan Samfylkingarinnar að staða Jóhönnu Sigurðardóttur hafi veikst síðustu daga. Fyrst hafi Össur Skarphéðinsson kallað eftir yngri og ferskari forystu fyrir næstu kosningar í viðtali og svo hafi hún fengið yfir sig „fyrsta alvarlega brotsjóinn“ innan flokksins á flokksstjórnarfundinum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert