Skrökva leggur sig niður

Frá aðalfundi Skrökvu í dag.
Frá aðalfundi Skrökvu í dag.

Skrökva, félag flokksbundinna framapotara, var lögð niður við hátíðlega athöfn á aðalfundi fylkingarinnar í dag. Skrökva er í dag með tvo fulltrúa í Stúdentaráði.

Fylkingin telur sig hafa náð helstu markmiðum sínum innan Stúdentaráðs Háskóla Íslands og sér því ekki grundvöll fyrir frekara formlegu starfi eða framboði.

Í fréttatilkynningu segir að hreyfingin hafi verið stofnuð til höfuðs flokkapólitík, meirihlutamyndunum, listakosningum og hlægilegri kosningabaráttu í Stúdentaráði sem hefði litla tengingu við nemendur. Í haust samþykktu allar fylkingar í Stúdentaráði ný lög fyrir ráðið sem taka gildi árið 2013; þar sem kosið verður innan sviða, einstaklingum og smærri listum gefst kostur á að bjóða sig fram og kjósendur geta kosið þvert á lista.


„Auk þess var starfræktur meirihluti allra fylkinga árið 2010 og meirihluti Vöku 2011 hefur að nokkru starfað í anda þess. Kosningabaráttan hefur verið málefnalegri og samstarfið innan Stúdentaráðs gott.


Í ljósi alls þessa þakkar Skrökva fyrir sig; stuðningsmönnum sínum, velunnurum og síðast en ekki síst vinum okkar og samstarfsfólki í Vöku og Röskvu.
Skrökva mun lifa áfram sem óformlegur félagsskapur flokksbundinna framapotara og mun láta í sér heyra þegar þörf krefur, en málefnalaust flokksframboð í nafni Skrökvu væri ekki bara óþarfi heldur umtalsverð hræsni af okkar hálfu miðað við allt það sem félagið stendur fyrir; þá fyrst værum við orðin „Alveg eins og hinir - Bara betri“... Okkar verki í Stúdentaráði er lokið,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert