Gagnrýnir velferðarráðuneytið

Reuters

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, gagnrýnir aðgerðaáætlun velferðarráðuneytisins og ótrúlegt seinlæti í málefnum kvenna sem eru með PIP-brjóstpúða.

„Meðan konurnar bíða heldur heilbrigðisþjónustan að sér höndum. Kona sem fengið hefur brjóstakrabbamein og er undir reglubundnu eftirliti fær ekki að panta tíma hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins ef hún er með PIP-púða. Hún á að bíða eftir bréfi. Og kona sem hefur einkenni sem rekja mætti til lekra PIP-púðanna fær ekki inni á spítala þótt læknir hennar óski eftir því að púðarnir verði teknir. Hún á að bíða eftir bréfi. Og lýtalæknirinn sem setti púðana í? Hann er í fríi.

Hafa síðustu 20 ár virkilega ekki skilað okkur lengra áleiðis? Hvar eru lögin um réttindi sjúklinga? Um jafnræði gagnvart heilbrigðisþjónustu? Þessar 440 konur geta ekki einu sinni staðið vörð um eigin heilsu og farið til læknis og skiptir þá engu þótt þær vilji og geti borgað sjálfar fyrir aðgerðina. Heilbrigðisþjónustan skellir í lás á nefið á þeim öllum,“ skrifar Álfheiður á bloggvef sinn í dag.

„Í fyrsta lagi þarf að koma upp ráðgjöf fyrir þessar konur. Yfirvöld kvarta undan skorti á upplýsingum um það hvaða konur þetta eru og auðvitað er það algerlega fáránlegt að lýtalæknar skuli komast upp með það að hundsa fyrirmæli landlæknis um að veita þessar upplýsingar. Af hverju er ekki einfaldlega tekið á móti símtölum frá þessum konum á einum stað? Þetta gerum við þegar náttúruhamfarir skella á og jafnvel þótt þær snerti mun færri en hér um ræðir. Það þarf að skrá nöfn kvennanna, heimili, sögu og líðan og veita þeim áfallahjálp og stuðning. Um leið má raða þeim í forgangsröð, leita upplýsinga um vilja þeirra til að fara í ómskoðun, eða fjarlægja púðana, hvort þær vilja fá nýja púða o.s.frv. Þetta er fyrsta skrefið.

Í öðru lagi þarf að tryggja ómskoðunina sem ráðuneytið er búið að lofa þeim öllum. Ef ekki nást samningar við Krabbameinsfélagið er þá um nokkuð annað að gera en að kaupa eða leigja ómskoðunartæki frá útlöndum og setja eitt upp á Landspítalanum og annað í bíl sem fer milli landshluta? Þetta er skref númer tvö.

Í þriðja lagi þarf að setja upp skurðaðgerðaáætlun eftir forgangsröðun heilbrigðisstarfsmanna og líðan kvennanna og tryggja að þær sem vilja, fái nýja púða sem heilbrigðisyfirvöld á Íslandi nota, og þurfi ekki að fara í tvær svæfingar – eina til að taka púða og aðra til að setja upp nýja.

Heilsan fyrst – buddan svo

Allt á þetta að sjálfsögðu að gera á kostað þess sem flutti PIP-púðana inn og þess sem setti þá í konurnar. Og það er ekkert óeðlilegt eða einstakt við þá leið. Hún er nú þegar farin að því mér er sagt af sómakærum lýtalæknum hér í bæ sem fengu púða frá yfirækninum og hún er líka farin t.d. í Svíþjóð þar sem einkastofur sem settu upp PIP-púðana gangast við ábyrgð sinni,“ skrifar Álfheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka