Helmingur látinna 17 ára og yngri

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Eggert Jóhannesson

Tólf létust í banaslysum í umferðinni í fyrra en helmingur þeirra var ungmenni 17 ára og yngri og er það óvenju hátt hlutfall samanborið við undanfarin ár, samkvæmt Umferðarstofu.

Þrjú af þeim sem létust voru 17 ára ökumenn bifreiða og einn jafnaldri þeirra var farþegi í bíl. 13 ára stúlka og 5 ára stúlkubarn létust þegar þær urðu fyrir bíl en fjórir af þeim sem létust í umferðinni í fyrra voru fótgangandi og er það einnig óvenju hátt hlutfall miðað við undanfarin ár.

Af þeim sem létust voru átta karlar og fjórar konur. Tveir voru á fimmtugsaldri, þrír á sjötugsaldri og einn var níræður. Þrjú banaslysanna urðu í þéttbýli en níu utan þéttbýlis. Ekki liggja fyrir staðfestar niðurstöður um orsakir slysanna.

„Á fimm ára tímabili frá 2007 til 2011 létust tæplega 13 manns að meðaltali á ári í umferðinni. Fimm ár þar á undan létust að meðaltali 25 á ári þannig að ljóst er að umtalsverð fækkun hefur átt sér stað hvað varðar fjölda látinna í umferðinni,“ segir í frétt á vef Umferðarstofu.

Markmiðið sé að fækka slysum enn frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert