„Spurning um mannslíf“

Líffæraþegar vonast eftir góðum undirtektum.
Líffæraþegar vonast eftir góðum undirtektum. Reuters

„Tilgangur þess að ég legg þetta fram ásamt meðflutningsmönnum er að freista þess að fjölga líffæragjöfum á Íslandi. Íslendingar hafa gefið um ellefu líffæri á ári og það er í neðri kantinum miðað við Norðurlönd. Biðlistinn eftir líffærum er langur og þurfa sjúklingar okkar að bíða svo mánuðum skiptir. Við þá bið tekur heilsunni að hraka. Þetta er því spurning um mannslíf,“ segir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknar og fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um svonefnt ætlað samþykki við líffæragjafir.

Gert ráð fyrir ætluðu samþykki

Með tillögunni er Alþingi ætlað að álykta „að fela velferðarráðherra að láta semja frumvarp sem geri ráð fyrir „ætluðu samþykki“ við líffæragjafir í stað „ætlaðrar neitunar“, þannig að látinn einstaklingur verði sjálfkrafa líffæragjafi nema hinn látni hafi látið í ljós vilja til hins gagnstæða... Neiti aðstandendur líffæragjöf við lát einstaklings skuli þó taka tillit til þeirrar óskar,“ segir í þingsályktunartillögunni.

Siv bindur vonir við að frumvarpið geti orðið að lögum síðla árs.

„Ég vonast til að tillagan verði samþykkt hið fyrsta á Alþingi. Það er ekki mjög flókið að vinna svona tillögu. Við höfum fyrirmyndir til að styðjast við frá Norðurlöndum. Við gætum því séð ný lög á þessu ári ef þingið vinnur hratt og ráðherrann hefur hraðar hendur,“ segir Siv og á við Guðbjart Hannesson velferðarráðherra. Hún bendir á að hlutfall neitunar af hálfu aðstandenda sé hærra hér en t.d. á Spáni.

„Ein ástæðan er sú að þetta er erfið ákvörðun fyrir aðstandandann. Hann veit ekki hvað hinn látni vildi sjálfur. Aðstandendur hafa því oft lítið til að styðjast við. Ef við breytum lagaumhverfinu og gerum ráð fyrir ætluðu samþykki auðveldar það aðstandendum að segja já. Við höldum hins vegar að sjálfsögðu rétti þeirra til að segja nei,“ segir Siv.

Margir eiga því lífið að launa

Kjartan Birgisson hjartaþegi skorar á þingið að styðja tillöguna.

„Við líffæraþegar vonumst eftir góðum undirtektum og að þetta gangi hratt fyrir sig. Sjálfur á ég líf mitt því að launa að fólk sé jákvætt gagnvart þessu. Við erum mörg sem værum ekki til frásagnar annars.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert