Sjö dómarar í skuldajöfnunarmáli

Hæstiréttur
Hæstiréttur mbl.is / Hjörtur

Aðalmeðferð í máli hjóna gegn Frjálsa fjárfestingabankanum fór fram í Hæstarétti í morgun. Athygli vekur að sjö hæstaréttardómarar skipa réttinn en sá háttur er aðeins hafður á í sérlega mikilvægum málum. Málið snýr að skuldajöfnun kröfu upp á eina milljón króna.

Málið er í raun angi annars sem hjónin höfðuðu á hendur bankanum en þá gerðu þau þá kröfu að lán þeirra ættu að bera svonefnda LIBOR-vexti. Kröfunni var hafnað en Frjálsa fjárfestingabankanum engu að síður gert að greiða hjónunum eina milljón króna í málskostnað. Ágreiningurinn nú snýst um hvort bankinn eigi gjaldfallna kröfu á hendur hjónunum vegna láns þeirra og geti greitt málskostnaðinn með skuldajöfnun.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að bankinn, eða slitastjórn hans öllu heldur, ætti kröfu á hendur hjónunum og staðfesti skuldajöfnunina. Lögmaður hjónanna hélt því hins vegar fram, að ekki væri hægt að krefjast greiðslu af þeim þar sem fyrirvaralaus móttaka greiðslu fyrir hverri afborgun hefði verið fullnaðargreiðsla.

Í dómi héraðsdóms segir: „Reistu aðilarnir útreikning afborgana á forsendu sem reyndist röng frá upphafi. Verður því talið að [Frjálsi fjárfestingabankinn] sé ekki bundinn við umkrafðar afborganir og geti krafið [hjónin] um frekari greiðslur. Þar sem kröfur beggja aðila eru fallnar í gjalddaga, eru samkynja og virðast að öðru leyti hæfar til að mætast þykja skilyrði skuldajafnaðar vera fyrir hendi í málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert