Sækja hrakta ferðamenn

Vatnajökull
Vatnajökull Morgunblaðið/RAX

Björgunarfélag Hornafjarðar var kallað út um klukkan hálftíu í morgun til að sækja tvo breska ferðamenn sem eru í vandræðum í Norðlingalægð á miðjum Vatnajökli. Eru þeir blautir og hraktir og tjald þeirra bilað.

Mennirnir hugðust ganga frá Kirkjubæjarklaustri, yfir Vatnajökul og til Hafnar. Lítur út fyrir að þeir séu búnir að vera á ferðinni í mánuð og hafi gefið sér allt að 50 daga til að ljúka þessari göngu, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Í morgun náðu þeir sambandi við bresku strandgæsluna og þaðan barst aðstoðarbeiðni til Neyðarlínunnar. Gervihnattasími mannanna er straumlítill en björgunarsveitir gera ráð fyrir að hafa aftur samband við þá í hádeginu.

Um 15 manns frá Björgunarfélaginu taka þátt í aðgerðinni og er farið á þremur bílum og fjórum sleðum á staðinn. Ekki er vitað hversu langan tíma það tekur en fara þarf hátt í 50 km á jökli til að komast að mönnunum. Vonast er til að hægt verði að koma þeim til byggða fyrir kvöldið því spár gera ráð fyrir versnandi veðri þegar líður á daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka