Boðið í heimsókn á þjóðarheimili

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, talar oft um Bessastaði sem þjóðarheimili. Sú nafngift á einkar vel við í dag þegar Bessastaðastofa og Bessastaðakirkja verða opnar almenningi frá klukkan 16.00 til 20.00. Opnunin er í tilefni Safnanætur og Vetrarhátíðar í Reykjavík.

Þúsundir gesta á hverju ári

„Þetta er í fyrsta skipti sem staðurinn er opnaður í tengslum við safnanótt, þótt þangað komi margir,“ sagði Örnólfur Thorsson forsetaritari. „Á annað hundrað þúsund ferðamenn skoða Bessastaði ár hvert og forseti tekur í Bessastaðastofu á móti um átta þúsund manns á hverju ári vegna funda, móttakna og annarra atburða. Fjölmargir hafa því lagt leið sína til Bessastaða á langri tíð.“

En verður forseti Íslands heima í dag?

„Ég á fastlega von á því,“ sagði Örnólfur. Hann sagði að tekið yrði á móti gestum og þeim sögð saga staðarins og fjölda merkilegra muna sem þar er að finna.

Séra Hans Guðberg Alfreðsson, prestur í Garðaprestakalli, verður í Bessastaðakirkju og segir frá kirkjunni sem er ein elsta steinkirkja landsins. Þá mun Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands, segja frá málverkum sem eru á veggjum Bessastaða. Halldóra Pálsdóttir, sem lengi starfaði hjá forsetaembættinu og er nú meðhjálpari í Bessastaðakirkju, verður á lofti Bessastaðastofu og segir frá munum sem þar má sjá.

„Á efri hæð Bessastaðastofu eru m.a. sýnishorn af gjöfum sem forsetunum og þjóðinni hafa verið færðar. Meðal hinna nýrri er t.d. skrifpúlt Sveinbjarnar Egilssonar skálds og fyrrverandi skólameistara Bessastaðaskóla. Ekki er þó pláss fyrir nema lítið brot af öllum gjöfunum.“

Einnig mun Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur á Þjóðminjasafninu og höfundur skýrslu um fornleifauppgröftinn á Bessastöðum, segja frá uppgreftrinum og fornleifum í kjallara Bessastaðastofu. Þar eru m.a. leifar af gólfi landfógetabústaðar konungsgarðsins frá 18. öld og eldri minjar bygginga sem þarna hafa staðið og eru frá 15.-16. öld. Í fornleifakjallaranum er einnig lítið safn gripa sem hafa fundist við uppgröftinn á staðnum. Þessar minjar komu m.a. í ljós þegar viðgerðir hófust á Bessastaðastofu fyrir rúmum 20 árum. Undir henni reyndust vera allt að 3,5 metra þykk mannvistarlög.

Nýnemar í fornleifafræði munu leggja starfsmönnum embættisins lið við að taka á móti gestunum í dag. Þá verður fyrsta forsetabifreiðin, Packard Sveins Björnssonar, sýnd við Bessastaðastofu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert