„Engin minnihlutastjórn“

Kópavogur
Kópavogur Árni Sæberg

Nýr meirihluti í bæjarstjórn Kópavogs hefur hug á að lækka fasteignagjöld í bænum. Fara á í söluátak á lóðum, en tugir lausra byggingalóða eru óbyggðar. Um 44% þeirra sem kusu í síðustu sveitarstjórnarkosningum standa á bak við nýja meirihlutann.

Í málefnasamningi nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Lista Kópavogsbúa í bæjarstjórn Kópavogs segir að fasteignagjöld á íbúðum og önnur gjöld verði endurskoðuð með lækkun í huga. „Við eigum eftir að setjast niður og útfæra þær hugmyndir sem fóru okkar á milli við gerð málefnasamningsins,“ segir Ómar Stefánsson varaformaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins. 

„Við höfum ákveðnar lausnir í huga, en þær verða að bíða þangað til við erum búin að ná sameiginlegri lendingu.“

Mjög vel rekið sveitarfélag

„Kópavogsbær er mjög vel rekið sveitarfélag og það verður bara að skoða þá möguleika sem eru fyrir hendi,“ svarar Ómar þegar hann er spurður að því hvort jafn skuldsett sveitarfélag og Kópavogur hafi tök á slíkri lækkun.

Hann segir að innan tíðar verði farið í átak á sölu á lóðum í bænum, en þær eru aðallega á Kópavogstúni, Glaðheimasvæði og í Vatnsenda en á síðastnefnda staðnum bíður heilt hverfi í Vatnsendahlíð nýrra íbúa. 

„Þetta eru allt lóðir sem við eigum og allt er til sölu,“ segir Ómar. „Þarna eru frábærir skólar, frábær íþróttaaðstaða og við munum byrja fljótlega á nýjum leikskóla í þessum hluta Vatnsendans sem opnar vonandi haustið 2013.“

Engin minnihlutastjórn

Á bak við nýja bæjarstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Lista Kópavogsbúa standa 44 % þeirra sem kusu í sveitarstjórnarkosningunum í Kópavogi 2010. Alls fengu þessir þrír flokkar 6540 atkvæði.

Fyrri bæjarstjórn Samfylkingar, VG, Næst besta flokksins og Lista Kópavogsbúa hlaut 8502 atkvæði í kosningunum og var með tæp 58% atkvæða.

Er þetta minnihlutastjórn? „Við erum með sex bæjarfulltrúa, þannig að þetta er engin minnihlutastjórn,“ segir Ómar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka