Játaði sprengjumálið

Frá vettvangi sprengjunnar á Hverfisgötu
Frá vettvangi sprengjunnar á Hverfisgötu Árni Sæberg

Karl á áttræðisaldri hefur játað aðild sína að sprengjumálinu svokallaða. Hann mun hafa verið einn að verki og liggja aðrir ekki undir grun en málið telst upplýst og hefur manninum verið sleppt úr haldi.

Tilgangur mannsins var ekki að valda skaða en hann vildi koma ákveðnum skilaboðum á framfæri til stjórnvalda. Sprengjan var ekki til þess fallin að valda eyðileggingu eða hættu, enda stóð maðurinn við hlið hennar er hún sprakk.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og fram hefur komið var maðurinn handtekinn í gær en við húsleit á heimili hans var lagt hald á ýmsan búnað sem tengist áðurnefndu máli. Þá var bíll mannsins sömuleiðis tekinn í vörslu lögreglu en ökutækið er sömu gerðar og lýst var eftir í fjölmiðlum. Fjölmargir voru kallaðir til skýrslutöku í þágu rannsóknarinnar en unnið var sleitulaust að málinu frá því að það kom upp á þriðjudaginn í síðustu viku enda var það litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglu.

Sprengjan fannst neðst við Hverfisgötu í Reykjavík þriðjudaginn 31. janúar. Staðfest er að sprengjan sprakk fyrir klukkan sjö að morgni þennan sama dag, steinsnar frá Stjórnarráðshúsinu í Lækjargötu. 

Engan sakaði og engar skemmdir urðu. Sprengjan var ekki öflug en hætta var þó á ferðum í nánasta umhverfi þar sem hún sprakk. 

Loka þurfti af hluta Hverfisgötunnar, eða frá Lækjargötu að Ingólfsstræti, eftir að tilkynning barst um torkennilegan hlut sem síðan reyndist vera leifar af sprengju.  Sprengjusveitir lögreglu og Landhelgisgæslunnar voru kallaðar til og gerðu þær viðeigandi ráðstafanir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka