Vildu semja við Framsókn

Frá bæjarstjórnarfundi í Kópavogi í dag.
Frá bæjarstjórnarfundi í Kópavogi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fórum af stað hress og kát,“ sagði Hafsteinn Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, þegar hann lýsti samstarfi fráfarandi meirihluta. Hann segir að áður en upp úr samstarfinu slitnaði hafi verið gerð tilraun til að fá bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins til að ganga til liðs við meirihlutann.

Hafsteinn fór yfir samstarf fráfarandi meirihluta, hvers vegna upp úr slitnaði og hvernig gekk að mynda nýjan meirihluta. Hann sagði að fljótlega hefðu komið upp árekstrar við Guðrúnu Pálsdóttur bæjarstjóra. Eina sem hann nefndi í því sambandi var svokallað bílamál bæjarstjórans.

Hafsteinn sagði að annað sem hefði valdið erfiðleikum var að Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi Næstbesta flokksins, hefði nokkrum sinnum lagt fram „óvæntar tillögur“. Hann hefði t.d. 3. nóvember lagt óvænt fram tillögu um ókeypis í sund fyrir börn, án þess að fyrir lægi hvað það myndi kosta.

Hafsteinn sagði að við undirbúning fjárhagsáætlunar hefði Ómari Stefánssyni verið boðið að taka þátt í vinnu meirihlutans. Hann hefði gert það áður og gefist vel. Í janúar hefði síðan verið rætt við Ómar um að hann gengi til liðs við meirihlutann og jafnframt hefði þá verið rætt um að bæjarstjórinn léti af störfum og Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingar, yrði bæjarstjóri. Ekki hefði hins vegar reynst áhugi á þessu þegar á reyndi. Í þessum umræðum hefði m.a. verið rætt um að Hjálmari yrði hent út úr meirihlutasamstarfinu og Ómar kæmi inn.

Hafsteinn sagði að á meirihlutafundi 12. janúar hefði verið samþykkt að veita oddvita Samfylkingar umboð til að segja bæjarstjóranum að hún nyti ekki trausts meirihlutans. Þetta gerði Guðríður föstudaginn 13. janúar.

Mistökin föstudaginn 13. janúar

Hjálmar sagði á bæjarstjórnarfundinum, að hann hefði ekki skilið niðurstöðu fundar meirihlutans 12. janúar á þann veg að Guðríður hefði fengið ótvírætt umboð til að segja bæjarstjóra upp störfum.

Hjálmar sagði jafnframt að það væru ný tíðindi fyrir sig að bæjarfulltrúar, sem voru með honum í meirihluta, hefðu verið í viðræðum við Ómar Stefánsson um að hann gengi til liðs við meirihlutann. Hjálmar sagðist ekki geta sætt sig við svona vinnubrögð. Þetta mál allt sýndi gamaldags vinnubrögð. Þarna hefði verið á ferð illa undirbúin pólitísk flétta. Hann sagðist ekki enn vita hvað var plan A í þessari fléttu enn síður hvert var plan B.

Hjálmar gagnrýndi að Guðríður hefði farið ein á fund bæjarstjóra. Guðríður sagðist geta tekið undir að það hefði verið mistök að fara ein á fundinn. Eftir á að hyggja hefðu allir oddvitarnir átt að fara, þannig hefði enginn getað vikið sér undan ábyrgð.  Og hún bætti við að það hefði verið mistök hjá sér að fara ein á þennan fund föstudaginn 13. janúar.

Guðríður sagði að Hjálmar hefði sjálfur stungið upp á að teknar yrðu upp viðræður við Ómar í vetur, en sagði að það hefði ekki verið til umræðu að henda Hjálmari út úr samstarfinu.

Guðríður sagðist hafa gert nokkur mistök í þessu máli öllu. Það hefðu verið mistök að ráða starfsmann bæjarins í stól bæjarstjóra eftir að hafa starfað þar í áratugi. Betra hefði verið að fá aðra manneskju í starfið. Hún sagði að það hefðu verið mistök af sér að leggja sig ekki meira fram um að tala um fyrir Hjálmari og leiða honum fyrir sjónir hversu miklar afleiðingar það gæti haft í för með sér að ganga út úr meirihlutanum.

Hjálmar tók fram að hann hefði aldrei stungið upp á að Ómar gengi til liðs við meirihlutann. Hann hefði einungis lagt til að Ómar tæki þátt í gerð fjárhagsáætlunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert