Var ekki brotlegur í starfi

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. mbl.is

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segir að ekkert hafi komið fram í meðferð máls Bjarna Randvers Sigurvinssonar stundakennara við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild skólans sem bendi til að hann hafi gerst brotlegur í starfi.

Kristín hefur skrifað bréf til starfsfólks Háskóla Íslands vegna þessa máls, en það hófst eftir að Vantrú kærðu kennslugögn Bjarna Randvers til siðanefndar skólans. Málið hefur verið umdeilt inna og utan skólans. Engin efnisleg niðurstaða fékkst í málið af hálfu siðanefndar.  Vantrú ákvað á síðasta ári að draga kæruna til baka.

Kristín sagðist með þessu bréfi einkum hafa vilja leggja áherslu á tvö atriði. „Ég legg áherslu á að háskólastarfið grundvallast á akademísku frelsi, en því fylgir líka ábyrgð. Með akademísku frelsi felst að kennarar og vísindamenn skólans velja sjálfir rannsóknarefni sín. Þeir ráða með hvaða hætti þeir kenna og tjá sig í kennslustofunni.
Hins vegar leggi ég líka áherslu á að málfrelsið gengur í báðar áttir og ef einhverju finnst á sig hallað eða hefur athugasemdir við það sem hér fer fram þá er mikilvægt að þeir komi sjónarmiðum sínum á framfæri og við sem hér störfum þurfum alltaf að vera reiðubúin að taka við gagnrýni og leiða hana til niðurstöðu.  Komi fram gagnrýni sem á erindi til siðanefndar verða málsmeðferðarreglur að vera skýrar og gegnsæjar.  Við höfum í ljósi þessa máls endurskoðað starfsreglur siðanefndar og aðra verkferla.

Í þessu máli fékkst ekki efnisleg niðurstaða. Það voru því margar spurningar í málinu sem átti eftir að svara og því vildi ég koma því á framfæri að það er ekkert sem hefur komið fram í meðferð málsins sem bendir til að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi,“ segir Kristín.

Bréf háskólarektors

Ágæta samstarfsfólk,

Í bréfi sem ég sendi öllum starfsmönnum Háskóla Íslands 7. desember sl. varðandi mál félagsins Vantrúar og Bjarna Randvers Sigurvinssonar stundakennara, lagði ég áherslu á fjögur meginatriði. Í fyrsta lagi að frumskylda háskóla væri að standa vörð um akademískt frelsi í kennslu og rannsóknum, og almennt um málfrelsi starfsmanna sinna. Í öðru lagi vakti ég athygli á að siðanefnd Háskóla Íslands verði að starfa sjálfstætt og án afskipta rektors, háskólaráðs, háskólasamfélagsins eða annarra sem hlut kunna að eiga að máli. Í þriðja lagi lýsti ég þeirri skoðun að málsmeðferðarreglur siðanefndar á hverjum tíma verði að vera skýrar og gegnsæjar. Í því samhengi vakti ég athygli á að starfsreglur siðanefndar hefðu verið endurskoðaðar í ljósi athugasemda óháðrar nefndar sem háskólaráð skipaði í góðri sátt við málsaðila til að fara yfir málið í heild sinni. Ráðið ákvað enn fremur að efna til málþings um akademískt frelsi í kennslu og rannsóknum sem haldið var 27. janúar sl. Í fjórða lagi hef ég bent á að þrátt fyrir að finna megi að málsmeðferð, líkt og óháða nefndin gerir, tel ég að siðanefnd og forystumenn Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar hafi verið í góðri trú þegar þeir leituðu sátta í málinu (m.a. í samræmi við ákvæði siðareglna þar um) þótt vissulega megi deila um hvenær, hvernig og hve lengi leita eigi sátta í slíkum málum.

Ég hef haft framangreint mál til frekari skoðunar í því augnamiði að sjá hvernig megi ljúka því þannig að þau sár sem það hefur valdið megi gróa um heilt. Niðurstaða mín eftir þessa yfirvegun er tvíþætt:

Í fyrsta lagi vil ég ítreka þá grundvallarafstöðu að frumskylda háskóla er að standa vörð um akademískt frelsi starfsmanna sinna í kennslu og rannsóknum. Engin óvissa má ríkja um rétt háskólakennara til að tjá sig frjálst í kennslustofunni samkvæmt eigin sannfæringu. Þessi réttur felur í sér að heimilt er að gagnrýna ólík viðhorf, kenningar og gildismat ogtakmarkast hann aðeins af lögum í samfélaginu og viðurkenndum siðareglum háskólasamfélaga. Komi fram gagnrýni á störf háskólakennara sem á erindi til siðanefndar verður málsmeðferð því að lúta skýrum og gagnsæjum reglum. Ég minni á að gagnrýnin kennsla og fræðimennska í lifandi háskólaumhverfi getur vakið upp andstæð sjónarmið og hörð viðbrögð. Afar mikilvægt er að við háskólafólk séum stöðugt reiðubúin til gagnrýninnar samræðu um störf okkar og að háskólakennarar sýni ábyrgð og virði rétt annarra, innan háskólasamfélagsins og utan, til að koma sjónarmiðum sínum að. Jafnframt ber þeim að hvetja nemendur sína til að taka sjálfstæða og gagnrýna afstöðu til kennsluefnisins.

Í öðru lagi tel ég rétt að bregðast við því að ekki fékkst efnisleg niðurstaða í málið sem er bagalegt í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast og hversu viðamikil hún hefur orðið. Vantrú dró að endingu umkvörtun sína til baka. Lyktir máls hafa skilið eftir ýmsar erfiðar spurningar sem valda málsaðilum skiljanlega hugarangri. Ég get að sjálfsögðu ekki kveðið upp efnislegan úrskurð í málinu. Hins vegar vil ég árétta að ekkert hefur komið fram í meðferð málsins sem bendir til þess að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert