Gæslan missir ekki tekjur vegna Þórs

Þór gnæfði yfir varðskipin Ægi og Týr þegar skipin voru …
Þór gnæfði yfir varðskipin Ægi og Týr þegar skipin voru öll í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er talin þörf á því að kalla varðskipið Tý heim fyrr en áætlað var, þrátt fyrir að Þór tefjist í Noregi. Landhelgisgæslan verður því ekki fyrir kostnaði né missir tekjur vegna erlendra verkefna þrátt fyrir að Þór tefjist í Noregi á meðan skipt er um vél.

Rekstraráætlun Landhelgisgæslunnar gerir ráð fyrir einu varðskipi við eftirlit innan hafsvæðisins á árinu 2012. Gert var ráð fyrir að Þór yrði við eftirlit og löggæslu innan íslenska hafsvæðisins, en eftir að ljóst varð að skipið þyrfti að vera fram í apríl í Noregi voru gerðar ráðstafanir til að tryggja viðveru varðskipanna Ægis eða Týs alla þá daga sem áætlað var að Þór yrði siglt.

Ægir er nú við landið og Týr er væntanlegur heim í lok mars. Ekki er talin þörf á að hugleiða aðra kosti. Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir þetta hins vegar mikil vonbrigði.

Þá er rétt að nefna að þyrlur gæslunnar sinna eftirliti og löggæslu og fjareftirlit stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar tryggir ágæta stöðumynd fyrir hafsvæðið. Landhelgisgæslan gerir að sögn Hrafnhildar ekki ráð fyrir að verða fyrir aukakostnaði vegna framkvæmdarinnar við Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert