Málið fer til héraðsdóms

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur

Drómi hefur ákveðið að kæra til Héraðsdóms Reykjavíkur ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að stöðva uppboð sem fara átti fram í síðustu viku. Í málinu er tekist á um uppgjör vegna gengistryggðs fasteignaláns.

Sýslumaðurinn í Reykjavík stöðvaði fjögur uppboðsmál í síðustu viku. Í öllum málunum mótmæltu lögmenn lántaka uppboðinu og vísuðu m.a. til nýfallins dóms Hæstaréttar. Þórður H. Sveinsson lögmaður segir að fleiri uppboð verði væntanlega stöðvuð næstu daga af sömu ástæðum.

Þegar sýslumaður tekur ákvörðun um að stöðva uppboð á kröfuhafinn val um hvort hann höfðar mál fyrir héraðsdómi til að fá ákvörðun sýslumanns breytt eða sætta sig við ákvörðunina en þá fellur uppboðsmálið niður. Þórður segir að lögmaður Dróma hafi strax lýst því yfir að hann myndi vísa þessari ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms.

Þórður segir ágætt að þetta mál fari í þennan farveg því þá fái málið hraðari afgreiðslu en ef ágreiningi um málið væri vísað til dómstólsins í formi stefnu. Þetta mál er því svokallað úrskurðarmál, líkt og málið sem Sigurður Hreinn Sigurðsson og Maria Elvira Mendez Pinedo unnu í Hæstarétti fyrr í þessum mánuði.

Þórður segir að í þessu máli sé tekist á um nokkur atriði sem dómstólar hafi ekki fjallað um áður. Lánið sem um ræðir er gengistryggt fasteignalán. Um tíma greiddi lántakinn eingöngu vexti af láninu. Hann fór síðar í svokallað greiðsluverkfall. Drómi hefur lagt fram kröfu um greiðslu vaxtavaxta, en þeirri kröfu hefur Þórður mótmælt. Í málinu er einnig tekist á um afturvirkni laga sem Alþingi setti, að frumkvæði efnahags- og viðskiptaráðherra, í desember 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert