„Eins og að hlaupa á tunglinu“

Arnaldur Birgir og Ágúst hlaupa í sandinum í Sahara. Íslenski …
Arnaldur Birgir og Ágúst hlaupa í sandinum í Sahara. Íslenski fáninn á lofti.

„Við erum reyndar mjög spakir akkúrat núna en ég væri að ljúga ef ég segði að við værum ekki þreyttir,“ segir Arnaldur Birgir Konráðsson, sem var í dag að ljúka 112 kílómetra hlaupi yfir Sahara-eyðimörkina í Túnis í Afríku ásamt félaga sínum, Ágústi Guðmundssyni. Hlaupið tók fjóra daga og fengu hlaupararnir flestar tegundir af veðri á leiðinni.

Arnaldur er framkvæmdastjóri og annar eigenda Boot Camp og Ágúst er slökkviliðsmaður. Um 160 manns tóku þátt í hlaupinu í ár. Hlaupið var á milli tveggja þorpa í Túnis, 112 kílómetra leið.

„Þetta var algjörlega ólýsanlegt, mögnuð upplifun,“ segir Arnaldur Birgir. „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu með orðum. En við fengum allt það sem okkur dreymdi um, flestar tegundir af veðri í krefjandi aðstæðum.“

Hitastigið var mjög misjafnt í eyðimörkinni þessa fjóra daga. Það fór úr 35 stiga hita niður í 4 stiga frost. „En þetta var eitthvað sem við höfðum gert ráð fyrir,“ segir Arnaldur Birgir.

Eyðimerkurhlaup undirbúið á Íslandi

En hvernig er hægt að undirbúa sig fyrir eyðimerkurhlaup á Íslandi?

Arnaldur Birgir hlær. „Það er mjög erfitt. Það er ekkert mál að koma sér í gott líkamlegt form og í raun var það ekki það erfiðasta við þetta allt saman. En það er erfitt að undirbúa sig fyrir þessar öfgafullu aðstæður, eiginlega ekki hægt. Sandurinn og hitinn, þetta er eitthvað sem maður á ekki að venjast.“

Arnaldur Birgir segir að þeir Ágúst hafi m.a. kynnst mönnum frá Argentínu og Ítalíu í hlaupinu. „Þeir voru alveg að frjósa þegar það var kalt en leið vel í hitanum þegar okkur leið verr.“

 Á þriðjudag hlupu þátttakendur 23 km. Daginn eftir hlupu þeir 16 km um morguninn og sjö km um kvöldið. Í gær var loks hlaupið heilt maraþon og í dag enduðu þeir á 23 km hlaupi.

 „Já, við erum mjög sáttir, maður lifandi,“ segir Arnaldur og hlær. Hann segir enn ekki ljóst í hvaða sæti þeir félagar lentu í hlaupinu en giskar á að þeir hafi verið í kringum það hundraðasta en um 160 manns tóku þátt. Margir þeirra taka þátt á hverju ári. „Við höfum kynnst hér alveg frábærum hópi íþróttamanna sem hafa náð mjög langt í hlaupum sem þessum.“

Með hjálp Google

En hvernig datt tveimur Íslendingum í hug að fara í eyðimerkurhlaup?

„Það var þannig að við vorum að hlaupa maraþon í Skotlandi og langaði í kjölfarið að prófa eitthvað nýtt og spennandi. Þetta var niðurstaðan - með hjálp frá Google!“

Arnaldur Birgir segir landslagið og umhverfið allt mjög sérstakt í eyðimörkinni og erfitt að lýsa því með orðum. „Við höfum nú kynnst ótrúlegri veðráttu á Íslandi en þannig er það líka þarna í eyðimörkinni - það var alveg ný upplifun. Veðrið breytist mjög hratt hérna.“

Spurður um hvernig sé að hlaupa í þessum aðstæðum svarar Arnaldur Birgir: „Þetta er stundum eins og að hlaupa á tunglinu. Við lentum í sandbyl og síðustu kílómetrana í dag var mjög hvasst, svolítið eins og íslenskt rok! Það fauk mikið. Við sváfum í opnum tjöldum á nóttinni og maður vaknaði með öll vit full af sandi - en það var svo sem ekki mikið sem maður svaf.“

Þrátt fyrir að vera stífir og þreyttir eftir langt hlaup upp við erfiðar og óvenjulegar aðstæður segir Arnaldur Birgir að þeir Ágúst séu sáttir. „Við getum ekki kvartað. Núna næstu daga borðum við vel og hvílum okkur, það er alveg á hreinu!“

Þeir félagar eru væntanlegir til Íslands á sunnudag. Spurður hvort til greina komi að taka aftur þátt í eyðimerkurhlaupinu í Sahara segir Arnaldur Birgir: „Ég á örugglega eftir að prófa eitthvað öðruvísi og sérstakt aftur en ég er ekkert viss um að ég taki endilega aftur þátt í þessu hlaupi þó þetta hafi verið mögnuð upplifun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert