Íslendingar neyslufrekasta þjóðin

Íslendingar eru neyslufrekasta þjóð í heimi samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Sigurðar Eyberg, mastersnema í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands. Sigurður flutti hádegisfyrirlestur í tengslum við Græna daga sem hófust í Háskóla Íslands í dag og standa yfir til föstudags.

Slagorð Grænna daga þetta árið er „Gert af Jörðu, greitt af Jörðu“ eða „Made in Earth, paid with Earth“.

Hádegisfyrirlestur Sigurðar bar yfirskriftina „Vistspor Íslands“ og bygðist á lokaritgerð hans úr mastersnámi í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands.

Sigurður notar vistsporið (e. Ecological Footprint) við mælingar sínar, en markmiðið með þeim var að finna út hversu stórt spor maðurinn skilur eftir sig á jörðinni með tilvist sinni. Annars vegar er mælt hversu mikið jörðin getur gefið af sér til að teljast sjálfbær og hins vegar hversu mikið maðurinn nýtir af jörðinni. Mismunurinn af þessu tvennu er vistspor mannsins.

Í rannsókninni voru reiknaðir út jarðhektarar á hvern mann, en til þess að geta talist sjálfbær má hver maður ekki nota meira en 2,1 jarðhektara. Íslendingar nota hins vegar 12,7 jarðhektara, ef frá eru tekin áhrif frá fiskveiðum, en sá þáttur er hvað umdeildastur í rannsókninni. Að þeim meðtöldum notar hver Íslendingur 56 jarðhektara.

Sjálfsmynd margra Íslendinga er sú að við séum sjálfbær þjóð. Fiskveiðistjórnunarkerfið byggist á sjálfbærni, orkuframleiðslan sé sjálfbær og að hér séu framleiddar vistvænar landbúnaðarafurðir. Samkvæmt niðurstöðum Sigurðar erum við þó langt frá því.

Strax á árinu 2003 leiddu rannsóknir í ljós að heimurinn væri ekki sjálfbær og að þá þegar hefði þurft um 25% til viðbótar við hann til þess að hann stæði undir neyslunni. Á undanförnum árum hefur ákallið um sjálfbæra þróun orðið stöðugt háværara, en nú er svo komið að jarðarbúar þyrftu hálfa jörð til viðbótar til að standa undir neyslu sinni á sjálfbæran hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert