Ólíðandi að ESB setji skilyrði um makrílinn

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

„Af hálfu okkar er ekki líðandi að ESB setji fram einhver skilyrði um makrílinn í samningaviðræðum almennt um aðildarferlið.“ Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forætisráðherra á Alþingi í morgun.

Jón Bjarnason, alþingismaður VG, spurði Jóhönnu út í samþykkt Evrópuþingsins í gær en þar eru kröfur ESB í makríldeilunni áréttaðar.

„Umrædd skýrsla var nú í gær samþykkt af Evrópuþinginu að mestu óbreytt en þó eru þar áréttuð enn frekar tvö sérstök atriði. Þau eru annars vegar að ekki muni verða framhald viðræðna eða samninga nema Ísland fallist á hin sögulegu skilyrði sem nota á við lausn makríldeilunnar, þ.e. okkur er gert að fallast á þau skilyrði sem Evrópusambandið setur fyrir lausn makríldeilunnar, og hins vegar er hert á þeim miklu möguleikum sem Evrópusambandið eigi til áhrifa á norðurslóðum þegar Ísland verði komið í Evrópusambandið,“ sagði Jón.

Jóhanna sagði að það yrði að hafa í huga að það væru tveir aðilar við samningaborðið, Ísland og Evrópusambandið. „Hlutverk Íslands og samningamannanna er að reyna að fá sem hagstæðasta niðurstöðu í öllum málum fyrir íslensku þjóðina. Að því hefur verið unnið sleitulaust síðan við settumst að þessu samningaborði. Allt ferlið er í eðlilegum gangi og ekkert það komið upp enn þá sem bendir til þess að það verði eitthvert strand í þessum viðræðum.

Varðandi makrílinn sem hv. þingmaður nefndi hafa Íslendingar og íslenska samninganefndin haldið mjög fast og skynsamlega á því máli fyrir hönd íslensku þjóðarinnar enda hefur hún það fram að færa í því efni sem nauðsynlegt er að samningsaðilar taki tillit til þannig að þar hefur ekkert verið gefið eftir. Af hálfu okkar er ekki líðandi að ESB setji fram einhver skilyrði um makrílinn í samningaviðræðum almennt um aðildarferlið. Sú er afstaða okkar, hefur verið og mun verða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert